Helgin: Jónas Sig með tvenna útgáfutónleika
Jónas Sig verður með tvenna útgáfutónleika á Austurlandi um helgina þar sem hann kynnir plötu sína Milda hjartað sem kemur út í nóvember. Tónleikarnir verða í Havarí í Berufirði á laugardag og í Valaskjálf á Egilsstöðum á sunnudag.
Milda hjartað er fjórða sólóplata Jónasar og af því tilefni ferðast hann um landið ásamt hljómsveit sinni og heimsækir fjölmarga staði. Eftir áramót áætlar Jónas að gefa út bók með textum plötunnar ásamt heimspekilegum hugleiðingum sínum í tengslum við hvern og einn þeirra.
Nafnið á plötunni er áhugavert. Aðspurður hvort hvort Jónas sé að mildast með árunum segir hann; „Já, ég held að það sé eina mögulega skýringin og er það ekki vel heppnuð öldrun? Ég vinn með orðaleik í tengslum við nafnið gegnum alla plötuna, annars vega sögninni að milda hjartað og hins vegar að leitast við að hafa milt hjarta í öllum aðstæðum,“ segir Jónas.
Hvar finnst Jónasi hann standa í dag í tónlistarsköpun sinni? „Mér finnst ég vera betri, eða, ég tengi meira við sjálfa mig núna. Þegar ég horfi til baka og sé mig tvítugan greini ég alveg hreina kjarnann, en ég var ekki eins tengdur honum og ég er í dag. Þess vegna finnst mér sú tónlist sem ég er að vinna að í dag betri en sú sem ég gerði áður, ekkert endilega að hljómarnir séu betri, heldur vegna þess að mér tekst að vera ég sjálfur og því verður tónlistin betri.“
Ath: Áður auglýstir tónleikar á Seyðisfirði á mánudag og Höfn á þriðjudag falla niður af óviðráðanlegum orsökum.
Pönkhátíð í Neskaupstað
Pönkhátíðin Orientu im culus haldin í Neskaupstað þann 17. Nóvember. Þar koma fram fjórar austfirskar hljómsveitir; DDT skordýraeitur, Vinny Vamos band, Sárasótt og Austurvígstöðvarnar. Auk þeirra verður hljómsveitin Fræbbblarnir með afmælistónleika á hátíðinni, en heil 40 ár eru síðan sú hljómsveit var stofnuð. Nánar má lesa um tónleikana hér.
Útgáfuljóðatónleikar Stefáns Boga
Héraðsbúinn Stefán Bogi Sveinsson fagnar nú útgáfu sinnar annarrar ljóðabókar sem ber heitið Ópus. Með bókinni fylgir hljóðdiskur þar sem höfundur les upp við undirleik Jónasar Sigurðssonar og Ómars Guðjónssonar. Þremenningarnir munu flytja verkið í heild sinni á útgáfuljóðleikum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum næstkomandi laugardag klukkan 14:00.
Kvennakórinn Héraðsdætur og Karlakórinn Drífandi
Kvennakórinn Héraðsdætur og Karlakórinn Drífandi leiða saman hesta sína og syngja fjölbreytt og skemmtileg lög bæði saman og í sitt hvoru lagi á tónleikum í Valaskjálf á morgun, laugardag. Einsöngvarar, Sigurveig Stefánsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Úlfar Trausti Þórðarson.