Helgin: „Það er stutt í ræturnar“
„Hún er litrík, dramatísk og falleg,“ segir söngvarinn Stefán Jakobsson eða Stebbi JAK gaf nýverið út sína fyrstu sólóplötu sem ber titilinn JAK, en hann verður með útgáfutónleika í Valaskjálf á Egilsstöðum ásamt bandi sínu í kvöld.
Platan hefur hlotið mjög góðar viðtökur og á henni sýnir Stefán sýnir á sér nýjar hliðar. Hann segir plötuna vissulega vera þunga en þó ekkert miðað við það sem hann er þekktur fyrir í sinni tónlist.
„Ég myndi segja að tónlistin sjálf væri töluvert léttari og poppaðri þó svo að margir textanna séu dramatískir. Ég er þó alltaf með sama grunninn, það er stutt í ræturnar.“ Stefán segist ekki hafa lagt upp með neitt ákveðið þema í textavinnu á plötunni. „Sumir eru þó beint uppgjör við ákveðna atburði og aðrir ekki bara það sem mér datt í hug þann daginn, um lífið og tilveruna.“
Í bandinu með Stefáni eru þeir Hálfdán Árnason á bassa, Birgir Jónsson á trommur og Birkir Rafn Gíslason á gítar. Á tónleikunum verður platan leikin í heild sinni ásamt nokkrum óvæntum og vel völdum ábreiðum.
Matarboð í netagerðinni á Seyðisfirði
Aðstandendur LungA skólans á Seyðisfirði bjóða í opnunarhóf í gamla netagerðarhúsnæðinu á morgun laugardag. Í fréttatilkynningu segir; Kæri Seyðisfjörður. Við höfum verið hérna í næstum fimm ár og erum orðin hluti af ykkar daglega lífi og þið eruð hluti af okkar.
Við erum ekki alveg vissir um hvað það þýðir, en við höfum það á tilfinningunni að eitthvað hlýtt og eitthvað mikilvægt sé að vaxa í kringum okkur.
Á þessum tíma höfum við verið að gera upp nokkur gömul hús og núna síðast gerðum við upp gömlu netargerðina. Okkur langar gjarnan til að sýna ykkur hverning hún lítur út að innann. Okkur þykir þetta líka fullkomin afsökun til að sjá ykkur öll á einum stað. Ykkur er hér með boðið í opnunarpartý/matarboð netargerðarinnar á morgun laugardag klukkan 17:00.
Skammdegisvermir kvenfélagsins í Hjaltastaðaþinghá
Kvenfélagið Björk heldur hinn árlega Skammdegisvermi í Hjaltalundi næstkomandi sunnudaginn milli klukkan 15:00 og 18:00.
Þar verður selt heklað og prjónað handverk, heimalagað bakkelsi og aðventu-fínerí. Þá verður happdrætti og nokkrir heppnir þátttakendur verða leystir út með veglegri matar og handverkskörfu. Allur ágóði af sölu á samkomunni rennur óskert í Hjaltalundarsjóð kvenfélagsins.
Notaleg stemming þar sem fjölskyldan getur átt saman gæðastund í rólegheitunum fjarri ys og þys hversdagsins, hægt verður að kaupa vöfflur með rjóma og heitt súkkulaði á staðnum. Athugið að enginn posi veðrur á staðnum.
Ljósaganga á Seyðisfirði gegn kynbundnu ofbeldi
Soroptimistaklúbbur Austurlands stendur fyrir ljósagöngu á Seyðisfirði næstkomandi sunnudag klukkan 15:00. Dagurinn markar upphaf sextán daga alþjóðlegs átaks gegn kynbundnu ofbeldi.
Gangan hefst við Seyðisfjarðarkirkju og er göngufólk hvatt til að mæta í appelsínugulu og hafa með sér vasaljós, luktir eða kyndla. Í lok göngu verða kaffiveitingar á Skaftfelli í boði Skaftfells og Fellabakarís.
Appelsínugulur litur er tákn þessa átaks og verður gengið undir slagorðinu Hvernig getur þú litað heiminn appelsínugulan?