Hið einstaka gistiheimili Kirkjubær á Stöðvarfirði á sölulista

Ekki á hverjum degi sem gömul afhelguð kirkja á Austurlandi dettur inn á söluskrá fasteignasölu. Það þó raunin með gömlu kirkjuna á Stöðvarfirði sem mörg síðustu ár hefur verið rekin sem gistiheimilið Kirkjubær með ágætum árangri.

Gamla kirkja bæjarbúa lauk hlutverki sínu fyrir alllöngu síðan en sú stendur hátt í byggðinni við Fjarðarbraut með sérdeilis fínt útsýni út fjörðinn.

Athygli vakti á sínum tíma þegar þessari hartnær 100 ára gömlu kirkjubyggingu var breytt í gistiheimili en kirkjan var byggð árið 1925 og vantar því aðeins eitt ár í aldarafmælið.

Kirkjuhúsið er lítið eða aðeins 69 m² en innandyra í dag er gistipláss fyrir allt að 10 manns þrátt fyrir smæðina. Þórdís Pála Reynisdóttir hjá LF fasteignasölu/Lindin fasteignir segir ýmsa möguleika til staðar fyrir áhugasama um eignina. Hún gæti vel nýst sem sumarhús eða jafnvel heilsárshús en húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi á Stöðvarfirði um langa hríð.

„Rekstur gistihússins hefur gengið ágætlega gegnum tíðina en helsta ástæða þess að húsið er nú á sölu er að eigendurnir eru svona að komast á aldur ef svo má að orði komast. Þarna hefur margt verið lagfært og betrumbætt gegnum árin og ýmsir möguleikar til staðar enda stendur kirkjan á eignarlóð fyrir utan allt annað. Það hafa þegar verið viðbrögð við þessari auglýsingu hjá okkur og viðræður í gangi en eigendurnir hafa óskað tilboða í húsið.“

Kirkjubær vart fyrr kominn á sölulista en áhugasamir höfðu samband og forvitnuðust um þessa sérstöku eign. Mynd LF Fasteignasala

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar