Hitamet ársins í Neskaupstað, blíðan heldur áfram

Mikill hiti og veðurblíða var víða á Austurlandi í gærdag og var hitamet ársins slegið í Neskaupstað þar sem hitinn mældist 26,3 gráður samkvæmt tölum Veðurstofunnar. Miðað við veðurspá dagsins er búist við jafnvel enn betra veðri í dag þar sem sólin mun skína skært yfir öllum fjórðungnum.

Hitinn var mestur við sjávarsíðuna í gærdag. Þannig fór hitinn einnig yfir 26 gráður á Seyðisfirði og tæplega það á Borgarfirði. Strekkingsvindur fylgdi hlýjunni og örlitlar skúrir seinni partinn. Í gærkvöldi lægði og mátti víða sjá undurfagran rauðan himinn á tíunda tímanum. Hitinn var enn víða um 20 gráður þegar komið var fram undir miðnætti.

Veðurspá dagsins gerir ráð fyrir áframhaldandi bongóblíðu á Austurlandi. Hitakort Veðurstofunnar sýnir að hitinn fer yfir 23 gráður á hádegi á Egilsstöðum, og hærri tölur sjást víða, svo dæmi sé tekið. Klukkan átta í morgun var hitinn kominn í 20 gráður á Norðfirði, Dalatanga og Borgarfirði. Það má því reikna með að flestir gangi um léttkæddir í dag á þessum slóðum.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar