Hlíðin hreyfist enn

Stöðug hreyfing er enn á mælum á jarðfleka utan við Búðará á Seyðisfirði. Náið verður fylgst með þróuninni í dag vegna rigningarspár í kvöld.

Í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar að sunnanverðu eru 40 speglar sem sýna hreyfingu hennar. Tveir þeirra hafa fæst um rúma þrjá sentímetra síðan um helgina. Hinir 38 hafa ekki haggast.

Speglarnir eru staðsettir á jarðvegsfleka milli stóru skriðunnar frá í desember og Búðarár. Hreyfing á flekanum varð til þess að um tuttugu manns úr húsunum næst ánni þurftu að yfirgefa þau á mánudag. Fólkið fær ekki að fara heim til sín fyrr en eftir helgi.

Esther Hlíðar Jensen, sérfræðingur hjá ofanflóðadeild Veðurstofunnar, segir að áfram sé stöðug færsla á speglunum tveimur, um nokkra sentímetra á dag.

Í gögnum frá Veðurstofunni er einnig að sjá vatnshæð í borholum á svæðinu. Hún hefur lækkað töluvert í öllum holum síðan í gær. Það er til marks um að það vatn sem komið var á svæðið finnur sér farveg í burtu sem Esther segir jákvætt. „Staðan batnar með hverjum klukkutímanum.“

Hver tími skiptir máli því mikilli úrkomu er spáð á Seyðisfirði seinni partinn í dag. Samkvæmt tölvuspá virðist heldur hafa dregið úr úrkomunni frá því sem upphaflega var spáð. Búist er við að rigningin byrji af alvöru upp úr hádegi.

„Við erum að fá leifar fellibyls sunnan að og það getur verið að sjálfvirka spáin sýni ekki það sem verður. Þess vegna munum við rýna þetta allt með veðurfræðingi,“ segir Esther.

Samkvæmt mynd úr InSar-mæli Veðurstofunnar, sem upphaflega mældi hreyfinguna á flekanum, virðist svæðið sem er á hreyfingu heldur hafa minnkað síðustu daga. Esther segir það rétt en bendir á ekki hafi enn náðst að staðfesta nákvæmlega hve mikið efni sé á hreyfingu. Til þess þurfi betri mælingar úr fleiri mælitækjum.

Ítarlega verður fylgst með þróun mála á Seyðisfirði í dag. „Það er reglubundinn fundur hjá okkur og síðan með almannavörnum. Við erum með snjóathugunarmenn á Seyðisfirði sem fóru uppeftir í fyrradag og gera það aftur ef þörf er á. Síðan verður stanslaus vakt til að fylgjast með þessum mælum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.