Í einangrun í vinnubúðum uppi á fjöllum

Ekki er talið að farþegar Norrænu hafi átt það á ættu að smitast af einstaklingi sem greindist með Covid-19 smit við sýnatöku er hann fór um borð í ferjuna á þriðjudag. Maðurinn og ferðafélagar hans fara beint í einangrun í vinnubúðir á hálendinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands en Norræna kom til Seyðisfjarðar í morgun. Um borð voru 730 farþegar.

Einn þeirra hafði greinst jákvæður af Covid-19 við sýnatöku í Hirtshals í Danmörku þaðan sem ferjan fór á þriðjudag. Fimm aðrir voru með honum í för og reyndust allir neikvæðir við sömu sýnatöku.

Sexmenningarnir voru allir í einangrun á leiðinni yfir hafið. Ekki er talið að aðrir farþegar hafi verið útsettir fyrir smiti.

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands tóku á móti ferðafélögunum á Seyðisfirði í morgun og leiðbeindu þeim um hvernig þeir eigi að hegða sér fyrst í stað. Mennirnir komu hingað til lands til að starfa á hálendinu og dvelja þar í vinnubúðum. Þeir verða þar í einangrun þar til frekari niðurstöður liggja fyrir.Sýni verður tekið úr hinum smitaða síðar í dag til að kanna hvort um gamalt smit sé að ræða. Frekari ráðstafanir um einangrun bíða niðurstöðu úr þeirri sýnatöku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar