Íhuga friðlýsingu Stakkahlíðar í Loðmundarfirði

Heimastjórn Borgarfjarðar eystri íhugar nú hvort leita eigi eftir friðlýsingu jarðarinnar Stakkahlíðar í Loðmundarfirði. Hugsanlegt er að haldinn verði kynningarfundur um málið á staðnum sjálfum þegar líður á sumarið.

Mál þetta komst á rekspöl fyrir tilstuðlan Þórhalls Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, sem fundaði með heimastjórninni nýverið og benti þeim á að hugmyndin um friðlýsingu þessarar stóru jarðar hafi verið á borði Umhverfisstofnunar um tveggja ára skeið án þess að nokkuð gerðist. Tími væri til kominn að heimafólk sparkaði þessum bolta af stað í stað þess að bíða eftir að aðrir gerðu hlutina.

Aðspurður um hvað myndi ávinnast með friðlýsingu segir Þórhallur að slíku fylgi auknir fjármunir frá ríkinu og ýmis góð sóknarfæri séu á þessum fagra og sérstaka stað.

„Í fyrsta lagi myndi friðlýsing þýða að það væri Umhverfisstofnunar að halda úti landverði. Við hjá ferðafélaginu höfum sjálf sinnt slíku um hríð en ef aðrir geta sinnt því með betri hætti er það stór kostur. Annað sem hér skiptir máli er að íbúðarhúsið í Stakkahlíð er komið yfir hundrað ára aldurinn svo hugsanlega má fá fjármagn frá Minjastofnun til að bæta það eða endurbyggja. Sjálfur sé ég fyrir mér að með auknu fjármagni megi setja þarna upp til dæmis rannsóknaraðstöðu fyrir háskólanema enda nóg af ástæðum til að rannsaka hitt og þetta í þessum firði.“

Heimastjórnin sjálf leitaði til Umhverfisstofnunar vegna þessa en í svari stofnunarinnar kom fram að þrátt fyrir að þáverandi umhverfisráðherra hafi lagt línur um friðlýsingu Stakkahlíðar, sem er í ríkiseigu, árið 2022 hafi framvinda málsins verið engin. Vinna við slíkt hefjist ekki nema fyrir liggi skýr vilji heimafólks og hagsmunaaðila á svæðinu.

 Í kjölfarið bókaði heimastjórn Borgarfjarðar eystri að mikilvægt sé að haldinn verði opinn kynningarfundur um kosti og galla friðlýsingar jarðarinnar. Hugsanlega megi halda slíkan kynningarfund í Loðmundarfirði sjálfum þegar á sumarið líður. Var þeirri beiðni komið til sveitarstjórnar Múlaþings sem tekur ákvörðun til eða frá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar