Játaði fjárdrátt frá starfsmannafélagi

Fyrrverandi formaður starfsmannafélags VHE á Reyðarfirði hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að draga sér fé úr sjóðum félagsins. Sú upphæð sem var til skoðunar lækkaði við meðferð málsins.

Upp komst um brotin í byrjun árs 2016. Viðkomandi var formaður félagsins frá stofnun þess 2010 þar til ljóst varð um fjárdráttinn. Hann stóð yfir í þrjú ár, frá því seint á árinu 2012 til 2015.

Upphaflega var formaðurinn ákærður fyrir að hafa dregið sér tæpar átta milljónir króna í 125 færslum og fór starfsmannafélagið fram á 9,3 milljónir í skaðabótum.

Við meðferð málsins voru 15 færslur felldar út og lækkaði upphæðin við það í 6,6 milljónir. Ákærða játaði skýlaust að hafa millifært það fé af reikningum félagsins í eigin þágu og viðurkenndi jafnframt lækkaða skaðabótakröfu félagsins.

Var það metið henni til mildunar refsingar sem var talin hæfileg sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.

Ákærðu var gert að greiða skaðabótakröfu félagsins, málskostnað þess upp á ríflega 100 þúsund krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, tæpar 1,4 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.