Jódís á þing í lokatölunum

Austfirðingar munu eiga tvo fulltrúa á nýkjörnu Alþingi, Líneik Önnu Sævarsdóttur úr Framsóknarflokki og Jódísi Skúladóttur úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þingsæti Jódísar var ekki tryggt fyrr en í lokatölunum.

Norðausturkjördæmi varð síðast til að skila af sér lokatölum klukkan kortér yfir níu í morgun.

Frambjóðendur úr Viðreisn, Pírötum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, auk Jódísar, höfðu skipst á jöfnunarþingsæti kjördæmisins í gegnum nóttina. Í lokatölunum kom í ljós að það varð Jódísar.

Framsóknarflokkurinn kom best út í kjördæminu, fékk 25,6% og þrjá þingmenn: Ingibjörgu Ólöfu Isaksen, Líneik Önnu og Þórarinn Inga Pétursson. Fyrir fjórum árum fékk flokkurinn 14,3% og tvo þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 18,5% og tvo þingmenn: Njál Trausta Friðbertsson og Berglindi Ósk Guðmundsdóttur. Síðast fékk flokkurinn 20,3% og tvo fulltrúa.

Vinstri græn frá 12,9% og auk Jódísar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur á þing. Fylgistapið í kjördæminu er mikið, úr 19,9%.

Samfylkingin tapar einnig smá fylgi, fær 10,5% nú en 13,9% 2017. Formaður flokksins, Logi Einarsson, heldur þingsæti sínu en flokkurinn tapar þingmanni í kjördæminu. Hann fékk jöfnunarsætið síðast.

Fylgi Miðflokksins helmingast, fer úr 18,6 í 8,9%. Það verður til þess að Anna Kolbrún Árnadóttir fellur af þingi en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heldur sínu sæti.

Flokkur fólksins tekur stökk, fær 8,6% nú en fékk 4,3% síðast. Það tryggir Jakob Frímann Magnússon á þing.

Aðrir flokkar koma fá ekki þingmann í kjördæminu. Viðreisn fær 5,4% nú en fékk 2,1% síðast. Píratar eru í 5,3% samanborið við 5,5% 2017. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fær 0,3.

Alls voru atkvæðin 24.180. Auðir seðlar voru 596 og ógildir 48. Þeir eru ívið færri en síðast. Kjörsókn var 80,9% en 82,4% síðast.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.