Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga fjárfestir í Responsible Foods

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur keypt 15% hlut í matvælafyrirtækinu Responseible Foods. Fyrirtækið þróar nýja tækni til að framleiða nasl úr íslensku hráefni. Stefnt er að því að starfsemi á vegum þess hefjist á Fáskrúðsfirði í byrjun næsta árs.

Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík á síðasta ári af Dr. Holly T. Kristinsson og hefur unnið að þróum heilsusnakks undir vörumerkinu Næra.

Í kynningu segir að fyrirtækið hafi það að markmiði að umbylta snakkmarkaðinum, sem sé undirlagður af óhollum eða bragðlausum vörum, og koma í staðinn með vörur úr íslensku hráefni sem séu í senn hollar, bragðgóðar, þægilegar og skemmtilegar.

Fyrirtækið er að þróa tækni til að þurrka hráefni hraðar og við lægra hitastig en til þessa hefur verið gert. Með því sé haldið í næringarefni og endingartími lengdur án rotvarnaefna. Fyrirtækið hefur að undanförnu leitað fjárfesta en meðal þeirra sem þegar hafa tekið þátt eru MS, Lýsi og Ó. Johnson & Kaaber.

Kaupfélagið, sem á ríflega 80% hlut í Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, hefur nú bæst í hópinn og verður framleiðsluhluti Responsible Foods úr sjávarafurðum, staðsettur á Fáskrúðsfirði og fá hráefni frá Loðnuvinnslunni. „Við vonumst til að það verði í byrjun næsta árs,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Í tilkynningu segir að á næstu árum geti skapast allt að tíu ný störf á Fáskrúðsfirði í tengslum við starfsemi Responsible Foods. „Við lítum á þetta sem áhugavert verkefni til að taka þátt í. Við erum þarna að ganga til liðs við frumkvöðla, hámenntað vísindafólk, sem er að fara nýjar leiðir. Þau eru komin á það stig að tilraunaframleiðsla er hafin og alvöru framleiðsla að byrja í lok sumars.

Við lítum á þetta sem áhættuverkefni en til að hlutirnir gerist þarf hugmyndafólk og síðan fjárfesta eins og okkur. Ef það gengur upp þá verður þetta mjög áhugavert. Með þessu koma öðruvísi störf í byggðarlagið en við höfum haft, þarna verða meðal annars einhver störf fyrir háskólagengið fólk,“ segir Friðrik Mar.

Í kynningu Responsible Foods segir að afurðirnar séu ætlaðar á íslenskan markað fyrst en síðan til útflutnings, einkum Bandaríkjanna þar sem Holly þekki til. Friðrik segir starfsemi fyrirtækisins falla vel að sýn og stefnu Loðnuvinnslunnar. „Við ráðum yfir miklu hráefni og höfum verið að leita leiða til að komast lengra inn á markaði með verðmætari vöru. Við sjáum þetta sem mögulega leið til að uppfylla það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.