Keyrði á hæðarslá við Fáskrúðsfjarðargöng

Tíu umferðaróhöpp hafa orðið í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi undanfarnar tvær vikur og hefur hálkan reynst ökumönnum erfið. Einn var kærður fyrir að aka með of háan farm um Fáskrúðsfjarðargöng.

Upp komst um aksturinn þar sem ökumaðurinn ók á hæðarslá framan við göngin Reyðarfjarðarmegin, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Einn meiddist lítillega eftir að hafa velt skammt frá bænum Hrólfsstöðum á Jökuldal. Annar slasaðist á hendi í óhappi á Skriðdalsvegi í fljúgandi hálku og hvassvirðri.

Slysið varð með þeim hætti að tvær bifreiðar voru að mætast. Önnur þeirra var með kerru í eftirdragi og feykti vindhviðan kerrunni yfir á rangan vegarhelming þannig hún skall framan á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Sá ökumaður meiddist.

Þá valt bíll í mikilli hálku á Upphéraðsvegi. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin er talin ónýt.

Tvær bifreiðar skullu saman á gatnamótum Ásvegar og Sæbergs á Breiðdalsvík. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir hina. Hann sagðist hafa blindast af sólinni og ekki séð hinn bílinn. Ökumaður og farþegi leituðu til læknis eftir slysið en meiðsli þeirra reyndust minniháttar. Báðir bílarnir eru mikið skemmdir.

Einn ökumaður var kærður á Egilsstöðum fyrir að aka bifreið án þess að hafa öðlast ökuréttindi en aðilinn er jafnframt sviptur ökuréttindum ævilangt. Þrír aðilar voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og einn ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkninefna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.