Kölluðu til lögreglu vegna farþega úr Norrænu

Starfsfólk verslunar Nettó á Egilsstöðum kallaði í morgun til lögreglu vegna farþega úr Norrænu sem rufu sóttkví með að fara inn í verslunina.

Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði um klukkan hálf níu í morgun með 190 farþega. Samkvæmt reglum sem tóku gildi í gær skulu allir þeir sem koma til landsins fara fyrst í skimun vegna Covid-19 og þaðan rakleitt í fimm daga sóttkví, uns þeir eru skimaðir á ný.

Áður en farþegarnir koma til landsins þurfa þeir að gefa upp dvalarstað. Við komuna eiga þeir að fara þangað og mega því ekki fara inn í verslanir.

Ingibjörg Kristín Gestsdóttir, verslunarstjóri Nettó á Egilsstöðum, staðfesti í samtali við Austurfrétt að starfsfólk verslunarinnar hefði orðið vart við sex manna hóp sem virtist vera að koma úr ferjunni. Fólkið játaði því þegar að því var spurt.

Hópurinn var tekinn til hliðar og haldið aðskildum frá öðrum sem leið áttu um verslunina þar til lögregla kom á staðinn og fylgdi fólkinu af vettvangi.

Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að um hefði veriðað ræða hóp fólks sem misskilið hafi þær leiðbeiningar sem það fékk en nú fengið frekari útskýringar á þeim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar