Krefjast breytinga á regluverki í sjávarútvegi

Fjölmennur íbúafundur sem haldinn var á Borgarfirði eystra í júní samþykkti einróma ályktun þar sem farið er fram á þrenns konar breytingar á lögum og reglugerðum sem tengjast sjávarútvegi. Ótækt sé að regluverkið gangi gegn hagsmunum samfélagsins.

Ályktuninni fylgdi ítarleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir kröfum íbúaþingsins og þær rökstuddar. Mikil gróska hefur verið í ýmiskonar frumkvöðlastarfsemi á Borgarfirði að undanförnu, bæði tengt ferðamennsku og af öðrum toga. Í ályktuninni kemur hins vegar fram að þrátt fyrir allt sé útgerð og fiskverkun enn undirstöðuatvinnuvegur í byggðarlaginu og nauðsynlegt að styðja við hann og efla. Að sögn Ólafs Hallgrímssonar, útgerðarmanns á Borgarfirði, er fæst það sem kemur fram í ályktuninni ný tíðindi, en hann telur eigi að síður mikilvægt að halda þessum kröfum á lofti því breytingarnar verði að gera til að styrkja stoðir byggðar og atvinnulífs á Borgarfirði.

 

Vilja losna við togara af heimamiðum

Í gildandi lögum má kalla það meginreglu að togveiðar eru óheimilar nær landi, eða viðmiðunarlínum við land, en 12 sjómílur. Frá þessari meginreglu eru allmargar undantekningar sem eru margar hverjar bundnar við hluta úr ári. Úti fyrir Norðausturlandi, á hafsvæði sem markast af Langanesi í norðri og Glettinganesi í suðri og oftast er nefnt Skápurinn, er þó smærri togurum, sem falla samkvæmt lögunum í flokka 2 og 3, heimilt að fiska mun nær landi eða alveg upp að 6 sjómílna markinu árið um kring. Við þetta eru Borgfirðingar ósáttir og segja að með þessu sé gengið freklega á heimamið smábáta frá Borgarfirði, sem finna megi á suðurhluta Skápsins.

„Okkar veiðisvæði er aðallega þetta svæði þarna út undir 12 mílurnar, norðan við Gletting og norður fyrir Borgarfjörð. Það er árvisst að við fáum togarana hér inn á 6 mílur, seinni part sumars eða í september, og það þýðir ekkert fyrir okkur að hugsa um þetta svæði meir eftir að þeir eru komnir. Það gengur illa á línu og fæst ekkert á færi.“

Við þessu hafa Borgarfjarðarbátarnir orðið að bregðast með því að sækja lengra og sigla þá allt að 40 sjómílur út fyrir togarana. Það þýðir lengri veiðiferðir á hæggengum bátum og aukinn eldsneytiskostnað.

 

Mun öflugri togskip á svæðinu en áður

Ólafur segir Skápinn ólíkan öðrum svæðum þar sem togveiðar séu heimilaðar innan 12 sjómílna að því leyti að jafnan sé linur botn á þeim svæðum og ekki sérstaklega von á bolfiskafla. Á Skápinn megi hins vegar sækja þorsk. Sögulegar skýringar séu á því hvers vegna Skápurinn sé opinn fyrir togveiðum en aðstæður hafi breyst.

„Þetta var miðað sérstaklega við litla togara sem á tímabili komu á nokkra minni staði, eins og til dæmis Eyvind Vopna sem var gerður út frá Vopnafirði. Þessi löggjöf var smíðuð með þá í huga. En nú eru skipin sem standast þessi viðmið laganna um lengd og fleira orðin bæði stór og kraftmikil.“

Borgfirðingar segja þróun í skipakosti hafa leitt til þess að allt að fjórum sinnum öflugri skip sæki nú þessi mið en ráð var fyrir gert þegar lögin voru sett.

„Af hverju þeir ryðjast á þetta svæði er mér hulin ráðgáta. Ég hef eiginlega trú á að þetta sé meira vani en eitthvað annað,“ bæti Ólafur við.

Að mati Borgfirðinga felst varanleg lausn við þessum vanda í því að breyta lögunum, en þar sem það geti verið langt og mikið ferli benda þeir á að koma megi á tímabundnum lokunum með reglugerð. Það hafi verið gert um skeið á 10. áratugnum og sömuleiðis megi finna fordæmi í nýlegri reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð. Þar sé til dæmis svæði grunnt við Glettinganes lokað fyrir handfæraveiðum og það sama hljóti að mega gera gagnvart togveiðum á sunnanverðum Skápnum, að minnsta kosti á þeim tíma sem smábátar eru mest að athafna sig á því svæði.

 

Strandveiðipottinum skipt milli landsvæða

Önnur meginkrafa Borgfirðinga snýr að fyrirkomulagi strandveiða. Þegar kerfinu var komið á fót var heildarafla tímabilsins deilt niður á bæði mánuði og veiðisvæði og þannig leitast við að tryggja dreifingu hans um landið.  Kerfinu var síðan breytt á þann veg að gefinn er út heildarafli sem nær yfir allt landið og hver bátur fær 12 daga í hverjum mánuði sem hann má róa.

Borgfirðingar benda á að veruleg aukning hafi orðið á bæði fjölda báta og afla sem landað er á svæðunum við sunnan- og vestanvert landið. Á þeim svæðum séu veður og aðstæður til veiða oftast hentugar snemma sumars á meðan besti tíminn til strandveiða við Norðausturland sé síðsumars. Þetta geti leitt til þess að lokað verði fyrir strandveiðar áður en komið er inn á hentugasta tímabilið hér eystra.

„Það er bara núna sem er að byrja almennileg veiði hjá okkur. Það leit út fyrir að það yrði lokað fyrir strandveiðarnar fljótlega en sem betur fer var bætt við heildaraflann þannig að það er útlit fyrir að þetta geti dugað út ágúst. En þetta er ekki góð staða ef búið er að veiða kvótann upp annarsstaðar við landið. Ég sem er með heimilisfesti míns báts á Borgarfirði eystra má ekkert fara út fyrir C-svæðið, sem nær frá Húsavík í norðri til Djúpavogs í suðri. Fjölgun skipa og aukning í afla hefur ekki orðið á okkar svæði, við erum alltaf að veiða um 2.000 tonn á ári. Þannig að við viljum gjarnan bara hafa það bundið við svæðið.“

 

Brothætt byggð án sértæks byggðakvóta

Þriðja krafan sem sett er fram í ályktun íbúafundarins snýr að úthlutun svonefnds sértæks byggðakvóta. Það eru aflaheimildir sem ráðherra úthlutar árlega í samstarfi við Byggðastofnun samkvæmt viðmiðum sem eru ólík því sem Fiskistofa notar við úthlutun hins almenna byggðakvóta.

Á ályktuninni segir að það veki furðu að Borgarfjarðarhreppur, þar sem kjarnaatvinnustarfsemi eru fiskveiðar og fiskvinnsla, mæti skilyrðum til að taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir, undir hatti Byggðastofnunar, en mæti ekki skilyrðum til að fá úthlutað sértækum byggðakvóta.

Því er óskað eftir því að stjórnvöld kanni hvort breyta megi fyrirkomulagi og reglum þessarar úthlutunar svo hún megi nýtast þeirri brothættu byggð sem er á Borgarfirði.

 

Texta ályktunarinnar og meðfylgjandi greinargerð má lesa í heild með því að smella hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar