Kviknaði í út frá eldavél

Talsverðar reykskemmdir urðu á íbúðarhúsnæði á Djúpavogi þar sem eldur kom upp rétt upp úr klukkan tíu í gærkvöldi. Húsráðandi náði sjálfur að slökkva eldinn áður en aðstoð barst.

Slökkviliðið á Djúpavogi var kallað út klukkan 22:05 í gær vegna eldsins. Þegar slökkviliðið kom á staðinn hafði húsráðandi náð að slökkva sjálfur eldinn með slökkvitæki. Slökkviliðið vaktaði svæðið fram á nótt þar til lögregla tók við vettvanginum.

Allar líkur eru taldar á að kviknað hafi í út frá eldavél. Snjólfur Gunnarsson, varðstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi sem stýrði slökkvistarfinu í gærkvöldi, segir að eldurinn hafi verið staðbundinn við eldavélina.

„Það eru töluverðar reykskemmdir á húsinu en ekki brunnið að ráði nema í eldhúsinu. Það var mikill reykur og þetta hefði getað farið illa.“

Húsráðandi var fluttur af vettvangi með sjúkrabíl til öryggis vegna hugsanlegrar reykeitrunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar