Langeygir eftir deiliskipulagi fyrir miðbæ Djúpavogs

Á meðan ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir miðbæ Djúpavogs hamlar það allri framþróun og uppbyggingu atvinnulífsins og það á sama tíma og ferðamannafjöldi á svæðið hefur margfaldast á fáeinum árum.

Bókun þar sem sveitarstjórn Múlaþings er hvött til að hefja vinnu við skipulagið var samþykkt á síðasta fundi heimastjórnar Djúpavogs. Sú speglar sams konar bókun sem heimastjórnin sendi frá sér fyrir réttu ári síðan.

Að sögn Eiðs Ragnarssonar, fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi, er sjálfsagt að minna á þetta mál reglulega enda verður þörfin brýnari og brýnari meðan að ferðamannastraumur í bæinn vex ár frá ári.

„Þetta er auðvitað í einhverju ferli þó vinnan sé ekki beint hafin en okkur hér finnst þetta nógu brýnt til að það fari framar í röðina. Þetta þarf að klára svo hægt sé að fara að gera eitthvað hér á miðbæjarsvæðinu. Tæknilega er lítið hægt að gera hér, byggja upp eða breyta án þess að fyrir liggi deiliskipulag. Það er mikilvægt orðið að fara í eitt og annað hér til að bæta aðstöðu og þjónustu við bæði ferðafólk og heimamenn.“

Heimastjórnin hefur beint þeim tilmælum til umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings að halda áfram með þá miklu vinnu sem búið var að vinna fyrir nokkrum árum síðan og ekki síður að fjármagn verði tryggt til verkefnisins strax á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar