Leitar til ráðuneytis vegna ákvörðunar um vanhæfi

Innviðaráðuneytið hefur til meðferðar tvær kvartanir Ásrúnar Mjallar Stefánsdóttur, sveitarstjórnarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Múlaþingi, vegna ákvarðana nefnda sveitarfélagsins um hæfi hennar við afgreiðslu mála.

Kvartanir Ásrúnar eru vegna tveggja mismunandi málefna og sendar inn með nokkurra mánaða millibili. Fyrri kvörtunin snýr að lögfræðiáliti um hæfi hennar fyrir áramót, hið seinna að ákvörðun um vanhæfi hennar á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í febrúar.

Málin hverfast bæði um að Ásrún er einnig formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) og hvaða áhrif það hefur á hæfi hennar að NAUST lýsi skoðunum á málum sem kjörnir fulltrúar í Múlaþingi þurfa síðar að fjalla um.

Hvenær myndast vanhæfi?


Samkvæmt fyrri kvörtun Ásrúnar tilkynnti Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, hennar að utanaðkomandi lögfræðingur hefði verið fenginn til að vinna álit um mögulegt vanhæfi og hagsmunaárekstra hennar sem kjörins fulltrúa og formanns NAUST.

Lögfræðiálitið var unnið af Jóni Jónssyni, lögmanni hjá Sókn lögmannsstofu. Þar rekur hann nokkra álitaþætti sem horfa verði til þegar hæfi sveitarstjórnarfulltrúa er metið, í grófum dráttum að vanhæfið myndist þegar hagsmunir eða tengsl verði sértæk fremur en almenn.

Þannig myndist vanhæfi fulltrúa sjaldnast þegar sveitarstjórn veiti almenna umsögn um mál, svo sem þingfrumvarp, heldur þegar til standi að taka stjórnvaldsákvörðun, svo sem gefa út framkvæmdaleyfi.

Formanni samtaka ber að gæta þeirra hagsmuna


Að sama skapi geri það ekki fulltrúa vanhæfan að vera almennur meðlimur í félagasamtökum. Hagsmunaárekstrar myndist hins vegar þegar kjörnir fulltrúar séu líka í forsvari fyrir samtök því fyrirsvarsmanni lögaðila hafi skyldur um að vinna að hagsmunum aðilans.

Lögmaðurinn fer yfir að hagsmunir NAUST séu ekki fjárhagslegir og þótt samtökunum sé með lögum tryggður ríkur réttur með kærurétti til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, þá teljist það ekki verulegir hagsmunir heldur aðeins sá réttur sem tryggður sé einstaklingum í gegnum félagasamtök. Á gráu svæði séu síðan hlutir eins og afstaða félagsfunda samtakanna til ákveðinna mála.

Fjallað er um ákvæði í lögunum þar sem segir að vanhæfi geti myndast uppi séu aðstæður sem gefi ástæðu til að draga hlutleysi fulltrúans í efa. Lögmaðurinn bendir á að þótt sveitarstjórnarfulltrúar séu oft kjörnir því þeir hafi ákveðna sýn á ákveðin mál og það eitt að tjá sig um mál skapi ekki vanhæfi, geti það myndast með mjög einörðum eða persónulegum yfirlýsingum. Línan sé hins vegar þegar sveitarstjórnarmaðurinn sé farinn að fjalla um umsagnir sem sendar séu inn í nafni félagsamtakanna. Þar með sé kjörinn fulltrúi sem slíkur farinn að taka afstöðu til erinda félags sem hann veiti forstöðu.

Álit um hæfi án vitundar fulltrúa


Með bréfi, eftir sveitarstjórnarfund í desember, fór Ásrún þess á leið við innviðaráðuneytið að það skæri úr um hvort sveitarfélagið hefði viðhaft eðlilega eðlilega og sanngjarna stjórnsýslu í málinu. Þar bendir hún á að lögfræðiálitið hafi verið unnið án hennar vitneskju, hvað þá að hún gæti komið sínum sjónarmiðum á framfæri.

Þá segir Ásrún á að hún hafi síðasta haust sem formaður NAUST farið á fund heimastjórnar Djúpavogs til að ræða áform Arctic Hydro um Hamarsvirkjun. Lögmaðurinn hafi hins vegar unnið fyrir Arctic Hydro og tjáð sig opinberlega í þágu málstaðar þess. Við það geri hún athugasemdir og spyr hvers vegna Múlaþing hafi kosið að fá álit sjálfstæðs lögmanns frekar en leita álits Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hún lýsir einnig þeirri skoðun að í lögfræðiálitinu hafi ekki nógu vel verið hugað að hæfi kjörinna fulltrúa eftir að hafa lýst ákveðinni skoðun, samanber að Hæstiréttur hafi árið 2003 hafnað kærum um vanhæfi þáverandi umhverfisráðherra í málefnum Kárahnjúkavirkjunar vegna fyrri afstöðu hans. Þá segir Ásrún að heppilegra hefði verið að fjalla um hæfi hennar í einstökum málum þegar það ætti við frekar en hæfið almennt.

Ákvörðuð vanhæf til að fjalla um umsögn NAUST


Hin kvörtunin snýr að ákvörðun meirihluta umhverfis- og framkvæmdaráðs frá í febrúar um að úrskurða Ásrúnu vanhæfa við umfjöllun um skipulag á Eiðum. NAUST skilaði inn umsögn um skipulagið en sú umsögn er undirrituð af varamanni í stjórn. Í erindi sínu segir Ásrún að hún telji ákvæði um vanhæfi í stjórnsýslulögum ekki eiga við um aðkomu hennar að málinu.

Ráðuneytið óskaði viðbragða frá Múlaþingi sem svaraði í lok mars. Þar segir að þótt Ásrún skrifi ekki undir umsögnina sé hún engu að síður formaður NAUST og því það nátengd málinu að það valdi vanhæfi. Vísað er til ráðuneytisúrskurðar frá árinu 2011 þar sem sveitarstjórnarmaður var úrskurðaður vanhæfur þar sem foreldrar hans höfðu sent inn umsögn um skipulag.

Samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðuneytinu liggur ákvörðun þess í málinu ekki enn fyrir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar