Léleg laxveiði í miklum þurrkum

Laxveiði var með minna móti í sumar enda lítið vatn í ánum vegna mikilla þurrka. Ekki er enn ljóst hver langtímaáhrif þeirra verða.

„Við erum rúmlega hálfdrættingar á við fyrri ár,“ segir Gísli Ásgeirsson hjá Six Rivers sem meðal annars er með Selá og Hofsá í Vopnafirði.

Samkvæmt heimasíðu Six Rivers veiddust 764 laxar í Selá í sumar samanborið við 1258 í fyrra og 581 í Hofsá á móti 1017 fyrir ári. Vissulega var sumarið 2020 gott veiðiár á Austurlandi en árið í ár er slakt þótt leitað sé lengra aftur. Veiði er lokið þar í sumar.

„Það hefur verið lítið af laxi og ekkert um stórar göngur. Þó hefur alltaf verið eitthvað þannig allir hafa farið glaðir og ánægðir frá okkur. Það er heldur ekki hægt að kvarta yfir veðrinu sem vann veiðileysið upp að einhverju leyti.“

Í Breiðdalsá voru í gær komnir 72 laxar á land samanborið við 136 í fyrra. Úr Jökulsá fengust 580 laxar nú en 860 fyrir ári. Jökla fór á yfirfall 24. ágúst en eftir það er veitt í hliðarám. Opið er á þessum svæðum, sem eru í umsjón Veiðiþjónustunnar Strengja, út september þótt ásókn síðustu dagana sé minni.

„Veiðin var þokkaleg í Jöklu í sumar miðað við meðalár. Það hefur lítið veiðst í hliðaránum því það var lítið vatn í þeim.

Veiðin í Breiðdalsá var mjög léleg. Hún varð nánast vatnslaus í lok júlí þegar aðalveiðitíminn er. Það hefur aðeins ræst úr eftir að byrjaði að rigna í september. Þetta var óvenjulegt sumar, lítið vatn og lítið af fiski,“ segir Þröstur Elliðason, hjá Strengjum.

Gísli segir sögulega lítið vatn hafa verið í Selá og Hofsá en þær séu af náttúrunnar hendi vatnsmiklar þannig það hafi ekki komið niður á veiðinni í sumar. Vesturdalsá sé enn afar vatnslítil. Hann segir ekki ljóst hvort einhver áhrif verði af vatnslitlu sumri til lengri tíma.

„Eins og vísindamennirnir segja þá hefur allt áhrif. Hvort það er til góðs eða ills verður tíminn að leiða í ljós. Það er ekkert við því að segja sem náttúran færir okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.