Líklegast að einn Austfirðingur komist á þing

Mestar líkur eru á að einn Austfirðingur komist á þing eftir Alþingiskosningarnar á laugardaginn, yrði sá þingmaður líklega Líneik Anna Sævarsdóttir, sem skipar annað sætið á framboðslista Framsóknarflokksins. Þetta kemur fram í kosningaspá Kjarnans sem birt var í gær og er unnin í samstarfi við Baldur Héðinsson, doktor í stærðfræði.

Spáin byggir á þeirri aðferðafræði að stuðst er við skoðanakannanir og söguleg gögn sem sýna ofmat/vanmat sem orðið hefur í kjördæmum á milli kosningaúrslita og skoðanakannana í gegnum tíðina.


Listi þingmanna yrði svona ef kosningaspáin myndi ganga eftir:

1. Njáll Trausti Friðbertsson D 99%
2. Ingibjörg Ólöf Isaksen B 98%
3. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir V 94%
4. Logi Einarsson S 94%
5. Berglind Ósk Guðmundsdóttir D 85%
6. Einar Brynjólfsson P 84%
7. Eiríkur Björn Björgvinsson C 66%
8. Haraldur Ingi Haraldsson J 62%
9. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson M 60%
10. Líneik Anna Sævarsdóttir B 58%

Staða mála miðað við þessa spá er sú að Líneik Anna er ekki örugg með þingsæti en þeir frambjóðendur sem eru í baráttu um að komast inn eru Jódís Skúladóttir, Austfirðingur sem skipar 2. sæti á framboðslista VG, og Hilda Jana Gísladóttir, Akureyringur sem skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar. Líkur Jódísar eru sagðar 42% og Hilda Jönu 41%. Það verður því að teljast ólíklegt, en alls ekki útilokað, að þær Líneik Anna og Jódís komist báðar inn á þing sem myndi þýða að Austfirðingar ættu tvo þingmenn. Austfirðingar munu líklega aðeins eiga einn þingmann á næsta kjörtímabili en það hefur einu sinni áður gerst en að var eftir kosningarnar 2016 þegar Þórunn Egilsdóttir var eini fulltrúi Austfirðinga.


Af þessari kosningaspá að dæma má segja að efstu fimm sætin eru nokkuð trygg en enn eru baráttusætin þónokkur. Miðað við kosningaspána eru eftirtaldir aðilar í baráttusætum:


Eiríkur Björn Björgvinsson (Oddviti Viðreisnar)
Haraldur Ingi Haraldsson (Oddviti Sósíalistaflokksins)
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Oddviti Miðflokksins)
Líneik Anna Sævarsdóttir (2. sæti hjá Framsóknarflokknum)
Jódís Skúladóttir (2. sæti hjá VG)
Hilda Jana Gísladóttir (2. sæti hjá Samfylkingunni)

Ólíklegt er að aðrir munu blanda sér í baráttuna en þó er ekki útilokað að Jakob Frímann Magnússon, oddviti Flokks fólksins, muni gera það en líkur hans eru mældar 34%. Undanfarið hefur Flokkur fólksins styrkt stöðu sína í skoðanakönnunum. Það ríkir því nokkur óvissa enn í Norðausturkjördæmi og spennan gæti orðið mikil á kosningavökum flokkanna.

 

*Þegar hugtakið Austfirðingur er notað í þessari grein er vísað í núverandi búsetu frambjóðenda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.