Líklegt að kuldatíðin hafi hoggið skarð í nýliðun ýmissa fugla
Hætt er við að kuldahretið austanlands frá því um síðustu helgi hafi mjög neikvæð áhrif á margar fuglategundir en sú staða verður þó ekki ljós að fullu fyrr en hretinu lýkur að sögn fuglafræðings.
Þó kuldahret sé ekki svo ýkja óalgeng á Austurlandi að vor- eða sumarlagi þá er óvenjulegt að hret standi jafn lengi yfir og hefur verið raunin nánast daglega frá síðustu helgi. Snjóað hefur mjög víða, hvassviðri verið raunin alls staðar dögum saman samhliða hitastigi sem farið hefur niður fyrir frostmark að næturlagi mjög víða.
Þetta gerist á versta tíma fyrir margar fuglategundir sem hafa hafið hreiðurgerð og enn verra fyrir þá fugla sem þegar hafa orpið. Halldór Walter Stefánsson hjá Náttúrustofu Austurlands segist telja líklegt að fuglar sem hafi komið sér fyrir ofarlega í fjöllum gætu hætt við allt saman í kjölfar þessarar tíðar meðan aðrar tegundir gætu fært sig um set og reynt upp á nýtt.
„Það er mjög viðbúið að þetta langa hret hafi neikvæð áhrifá fuglalífið. Ekki aðeins þessi væta og snjóalög heldur og kuldinn sem hefur fylgt þessu. Það er mjög áberandi að þessir fuglar sem safna sér skordýrum sem æti að þeir hafa ekki úr miklu að moða. Ég sjálfur hef gefið fuglum að borða hér á pallinum hjá mér í vetur og margir þeir fuglar eru enn í dag að koma á pallinn til að næla sér í rúsínur og slíkt til að gefa ungum sínum. Það er óvenjuleg staða að skógarþrestir og svartþrestir séu enn að safna mat í gogginn af pallinum og fljúga með burt til að fæða ungana og það finnst mér segja sitt um hversu erfitt er að finna æti.“
Halldór telur þó að staða fugla á láglendi gæti enn verið í lagi en erfitt sé að meta stöðuna fyrr en veðrinu sloti og hlýna fari að nýju.
„Í raun þarf að bíða í nokkra daga eftir að veðrinu slotar að fullu til að geta áttað sig á afleiðingum þessa veðurfars á hinar ýmsu tegundir hér um slóðir.“
Vorboðinn sjálfur, lóan, er einn þeirra fugla sem gæti alfarið hætt við varp sitt þegar veðurfarið er eins og verið hefur síðustu dægrin. Mynd Herborg Þórðardóttir