Orkumálinn 2024

Lindex opnar á Egilsstöðum

Forráðamenn Lindex á Íslandi hafa ákveðið að opna nýja verslun í miðbæ Egilsstaða nú í haust. Samningur þess efnis hefur verið undirritaður af hálfu Reita og forráðamanna Lindex. Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður Evrópu með um 500 verslanir í 18 löndum. Lindex býður upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt, snyrtivörur og fylgihluti sem og fatnað á börn og unglinga.

Verslunin verður staðsett við hlið Bónuss á Egilsstöðum og mun bjóða upp á allar meginvörulínur Lindex auk þess sem boðið verður upp á tækni á borð við 70 tommu snertiskjái við mátunarklefa. Framkvæmdir eru þegar hafnar við nýju verslunina og er opnun áætluð á næstunni, í síðasta lagi í september.

Verslunarkjarninn að Miðvangi 13 var byggður árið 2005 og telur um 1.800 fermetra. Þar er að finna auk Bónus, verslunina A4 og Subway en nú bætist Lindex við flóruna.


Mikill áhugi eystra

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á Lindex sem hefur hvatt okkur áfram í að finna stað fyrir verslun okkar hér. Við teljum því einstakt að koma og festa rætur hér á Austurlandi með verslun sem Austlendingar geta kallað sína eigin. Við erum því full tilhlökkunar að koma austur og fagna opnuninni." segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.

Að sögn hennar mun verslunin, sem telur tæplega 300 fermetra, innihalda allar meginvörulínur Lindex. Barnadeildin mun meðal annars bjóða upp á ungbarnafatnað sem einungis er framleiddur með lífrænni bómull, barnafatnað, unglingafatnað upp í stærðir 170, undirfatalínu Lindex, dömugallabuxur og fleira.


Sjötta verslunin hérlendis

Lindex rekur nú 6 verslanir á Íslandi, í Smáralind, Kringlunni, á Glerártorgi á Akureyri, miðbæ Akraness og i Krossmóum í Reykjanesbæ. Aðalskrifstofur Lindex eru í Gautaborg i Svíþjóð og eru um heiminn starfræktar um 500 Lindex-verslanir í 18 löndum. Hjá fyrirtækinu starfa um 5.000 manns en við íslensku verslanirnar um 100 manns, ásamt 10 manns í Danmörku.


Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir reka verslanir Lindex hér á landi. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.