Líneik Anna: Flokkurinn sleppti tækifærum til að stuðla að breiðari sátt

Líneik Anna Sævarsdóttir, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði, segir niðurstöðu nýafstaðinna þingkosninga vonbrigði fyrir flokkinn sem flokksfélagar þurfi að vinna úr saman. Hún sé þakklát fyrir að hafa fengið tækifærið á Alþingi og hlakkar til nýrra verkefna.


„Úrslit kosninganna voru að sjálfsögðu vonbrigði fyrir mig persónulega og Framsóknarflokkinn. Flokkurinn náði mjög góðum árangri í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili en ég tel að hann hafi sleppt góðum tækifærum til að stuðla að breiðari sátt í samfélaginu.

Ég tel niðurstöðu kosninganna vera áskorun sem Framsóknarmenn þurfa að vinna úr saman,“ segir Líneik Anna í samtali við Austurfrétt.

Flokkurinn fékk 24,4% atkvæða í kosningunum 2013 og 19 þingmenn, þar af fjóra í Norðausturkjördæmi. Nú fékk flokkurinn 11,5%, átta þingmenn þar af tvo í kjördæminu.

Tveir þingmenn kjördæmisins af tíu, Framsóknarmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Egilsdóttir, eru með lögheimili á Austurlandi og Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar er ættaður frá Norðfirði en hefur alla tíð búið í Reykjavík. Tveir kom úr Þingeyjasýslum, einn úr utanverðum Eyjafirði og fjórir frá Akureyri.

„Varðandi niðurstöðuna í kjördæminu í heild þá tel ég mikilvægt að búseta þingmanna dreifist betur um kjördæmið heldur en raunin er nú, það gerir þingmannahópinn sterkari og auðveldar vinnu hópsins fyrir kjördæmið.“

Eins og fleiri þingmenn skoðar Líneik sín næstu skref. Hún hefur þegar ákveðið að fara í nám. „Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að starfa á Alþingi síðustu árin, ég lærði margt og er reynslunni ríkari. Hjá mér taka nú við ný verkefni og ný markmið og ég reikna með því að hafa nóg að gera eins og ég hef alltaf haft.

Ég er að sjálfsögðu viðbúin að sinna hlutverki mínu sem varaþingmaður þegar eftir því verður kallað. Þar fyrir utan reikna ég með að taka að mér tímabundin afmörkuð verkefni til að byrja með og þá ætla ég í fjarnám í opinberri stjórnsýslu sem hefst nú í janúar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.