Magnús Þór: Verðum að sýna hvers við erum megnug

Magnús Þór Ásmundsson, fyrrum forstjóri Alcoa Fjarðaáls, tók í gær við nýju starfi sem framkvæmdastjóri Faxaflóahafna. Magnús Þór hafði enga tengingu við Austurland þegar hann fluttist austur vorið 2009 en segist á tíu árum hafa myndað sterk tengsl við svæðið sem hann muni rækta áfram. Hann kveðst bjartsýnn á framtíð svæðisins sem eigi ýmis tækifæri. Það sé undir íbúum þess að nýta þau.

Magnús fluttist austur með fjölskyldu sinni vorið 2009. Hann hafði þá starfað hjá Marel í 19 ár en bauðst starf hjá Fjarðaáli, fyrstu þrjú árin sem framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar hjá Fjarðaáli og þriðja árið einnig sem framkvæmdastjóri skautsmiðju. Hann varð forstjóri móðurfélagsins, Alcoa Ísland, árið 2012 en það starf var sameinað forstjórastarfi Fjarðaáls í lok árs 2014.

Hann lét af því starfi fyrir rúmu ári. Síðustu mánuði hefur hann veitt ráðgjöf við rekstur Vök baths, en hann er meðal hluthafa þar. „Frumkvöðlarnir kynntu verkefnið fyrir ýmsum aðilum, meðal annars mér og ég ákvað að taka þátt sem hluthafi. Mér finnst þetta bæði áhugavert og skemmtilegt verkefni,“ segir Magnús Þór í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Hann hefur trú á að Vök ýti undir möguleika Fljótsdalshéraðs sem ferðamannastaðar. „Ef við ætlum að laða að fundi eða viðburði þarf eitthvað að vera hægt að gera. Það hefur vantað ferðamannasegla á Austurlandi, sem annars hefur upp á helling að bjóða.“

En það eru ekki bara ferðamennirnir sem hafa tekið Vök fagnandi. „Það hefur verið frábært að sjá hvernig samfélagið hér hefur tekið Vök. Við erum með um 1000 árskortshafa og þetta er orðið nokkurs konar samkomustaður.“

Hvernig nýtum við það sem Austurland hefur?

Ferðamennskan er eitt af því sem Magnús telur að muni efla Austurland til lengri tíma litið. „Við eigum ekki að keppa við höfuðborgarsvæðið á forsendum höfuðborgarsvæðisins heldur hugsa um í hverju við séum góð, hvar við höfum sérstöðu og hvernig við getum gert meira með það.

Hreindýraveiðin er sérstaða sem Austurland hefur en fyrirkomulag veiðanna hefur verið óbreytt um áraraðir. Hvernig sköpum við meiri verðmæti úr þeim? Við erum góð í menningu og listum, getum við skapað meiri verðmæti úr því?

Við eigum einstaka staði eins og Borgarfjörð eystra og síðan er Vatnajökulsþjóðgarður hér í bakgarðinum. Síðan held ég að mjög mikil tækifæri tengist flugvellinum. Þar þarf að herja á Isavia og fleiri um að byggja upp miðstöð sem er áhugaverð fyrir alþjóðlegt flug. Það þarf að hugsa stórt og taka svo eitt skref í einu.

Austurland er mjög sterkt atvinnulega, með sjávarútveginn og fyrirtæki eins og Fjarðaál. Það hefur verið gaman að sjá margt ungt og öflugt fólk flytja hingað og ákveða að vera hér áfram en til þess að svo megi verða þurfa að vera til staðar tækifæri.“

Snýst að lokum oft um samgöngur

Eftir að hafa flutt úr borginni fyrir rúmum áratug þekkir Magnús á eigin skinni þær áskoranir sem margir þeir sem feta sömu slóð glíma við. „Við töluðum stundum um það hjá Fjarðaáli að færa höfuðborgina nær Austurlandi. Þess vegna var samið við Flugfélag Íslands þannig að starfsfólk ætti auðveldara með að fá fjölskyldur og vini til sín eða geta ferðast suður.

Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnulífs og samfélags að til staðar sé áhugavert samfélag og svo þjónusta. Þess vegna verðum við stöðugt að vinna í þessari innviðauppbyggingu. Það snýst oft um samgöngurnar, það skiptir ekki máli hvar spítalinn er svo lengi sem þú kemst þangað.“

Heilbrigðismálin eru eitt af því sem Magnús Þór telur helstu áskorun Austurlands. „Þegar allt er í lagi er það ósýnilegt en þegar þú þarft á þjónustunni að halda kemstu að því að þú ert verr staddur en á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst það sérstök staða að ríkið, sem kaupandi þjónustunnar, hefur lítið um það að segja hvar hún er veitt. Ég skil ekki að ekki sé hægt að koma upp kerfi þar sem betri aðgangur er að sérfræðiþjónustu. Þetta er áhyggjuefni fyrir þá sem hér búa en mér finnst að eigi að vera hægt að laga þetta og að það eigi að ganga í það.“

Sameininguna þarf að nýta strax

Magnús kveðst hafa trú á að nýtt sameinað sveitarfélag á Austurlandi eigi eftir að efla þessa hagsmunabaráttu. „Ég fagna sameiningunni sem ég held að sé gott skref. Ég tel að hún eigi eftir að auka samkennd á svæðinu og slagkraft sveitarfélaganna gagnvart hinu opinbera og öllum hagaðilum. Mér líst vel á heimastjórnirnar og vonast að þar takist vel til.

Þetta er stórt breytingastjórnunarverkefni þar sem fólk þarf að vanda sig. Ég heyri talað um að nú verði kosið og síðan séu tvö ár til stefnu til að sameina. Menn mega hins vegar ekki gleyma sér við að sameina í mörg ár en gleyma að stjórna sveitarfélaginu og nýta tækifæri sameiningarinnar í fjármálum og verkefnum eins og flugvelllinum og samgöngum. Ég geri ekki lítið úr að það þarf að standa vel að sameiningunni en það verður að byrja strax í þessu af metnaði og með góða forystu en ekki eftir 2-3 ár.“

Ekki hægt að bíða eftir ríkinu

Magnús bendir á að samhliða öllu þessu þurfi að vera áhugaverð atvinnutækifæri til staðar. Til að skapa þau verði Austfirðingar að sýna frumkvæði. „Það er ekki hægt að bíða og væla yfir að ríkið eða stórfyrirtæki eigi að færa hingað störf, ég myndi frekar vilja sjá þau verða til með nýsköpun. Við verðum að búa yfir hugarfari nýsköpunar og frumkvæðis. Við þurfum að sýna hvers við erum megnug og hvernig við getum skapað virði fyrir notendur þjónustu eða vöru. Það þarf að selja þessa virðisaukningu en ekki vænta verkefna bara því við erum í sveit og þú átt að vorkenna okkur.

Fjarðaál vill kaupa þjónustu af fyrirtækjum í nærsamfélaginu og hefur gert í ríkum mæli en öll fyrirtæki verða að passa sig á að vera samkeppnishæf og hafa virði til að bjóða. Það er ekki hægt að vænta viðskipta bara af því þú ert einhvers staðar. Þessi frumkvöðlahugsun er lykilatriði í uppbyggingu atvinnulífs fyrir minni byggðarlög.“

Spurður nánar út í hvernig Austurland geti náð þessari hugsun og umhverfi nefnir Magnús háskólasetur. „Ég held að það yrði mikilvægt framfaraskref. Atvinnulífið myndi fagna því og það gæti ýtt undir nýsköpun og rannsóknir á svæðinu. Það hefur verið rætt um að tengja það tæknimenntun, sem ég held að sé gott en við megum muna að nýsköpun er ekki bara í vöruþróun heldur getur líka verið til dæmis í menningu og listum.“

Magnús minnist líka á tækifæri sem kennd eru við fjórðu iðnbyltinguna og stafrænar lausnir þar sem í auknum mæli má flytja vinnuna með sér og tengir það nýja sveitarfélaginu. „Sameiningin snýst ekki um að flytja alla á sama stað heldur nýta fjármuni betur og halda í samfélagsmyndina.

Ég held að við getum nýtt stafrænar lausnir til að ná betri árangri í okkar dreifða samfélagi. Fólk óttast lokun skóla en ég held að tækifærin geti gengið í báðar áttir. Hvernig getur Egilsstaðaskóli tengst skólanum á Borgarfirði? Hvaða tækifæri eru í því?“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar