„Mátt bara ekki ræna fyrirtækið þitt“

Vélaverkstæðið G. Skúlason er annað tveggja fyrirtækja á Austurlandi sem hefur verið á lista Creditinfo um framúrskarandi fyrirtæki þau átta ár sem hann hefur verið birtur.


Síðastliðin átta ár hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu sem sýnir hvaða íslensku fyrirtæki teljast til fyrirmyndar í sínum rekstri. Listinn var birtur í Morgunblaðinu í gær. Að þessu sinni komust 2,2% fyrirtæki á listann af þeim rúmlega 38.500 sem skráð eru í hlutafélagaskrá.

Hvað gerir fyrirtækið framúrskarandi að mati Creditinfo?

  • Ársreikningi skilað á réttum tíma
  • Lánshæfisflokkur er 1-3
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) hefur verið jákvæður þrjú ár í röð
  • Ársniðurstaða hefur verið jákvæð þrjú ár í röð
  • Eiginfjárhlutfall 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð
  • Framkvæmdastjóri er skráður í hlutafélagaskrá
  • Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo
  • Eignir a.m.k. 90 m.kr. árið 2016 og 80 m.kr. 2015 og 2014

 

Alls eru 25 fyrirtæki að austan á listanum í ár, en auk G. Skúlasonar hefur Héraðsprent á Egilsstöðum verið á honum frá upphafi. G. Skúlason vinnur að málmsmíði, málmvörugerð og vélsmíði, jafnt við viðgerðir sem og nýsmíði. Fyrirtækið fagnaði 30 ára starfsafmæli á síðasta ári og er eiginfjárhlutfall þess 83%. 


„Við notum þetta ekki neitt“
„Við höfum aldrei stefnt að því að fá þessa viðurkenningu og aldrei gert neitt sérstakt til þess að ná henni, þú mátt bara ekki ræna fyrirtækið þitt, þá næst þetta,“ segir Guðmundur Skúlason, framkvæmdastjóri G. Skúlason.

Guðmundur segir viðurkenninguna litlu skipta fyrir fyrirtækið. „Við notum þetta ekki neitt, kaupum ekki viðurkenninguna, listann eða neitt til þess að nota, mér myndi ekki detta í hug að borga krónu fyrir þetta.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.