Matthildur nýr rekstrarstjóri í Valaskjálf

Matthildur Stefanía Þórsdóttir hefur verið ráðin sem nýr rekstrarstjóri Valaskjálf á Egilsstöðum. Hún hefur víðtæka reynslu af viðburða- og ferðaþjónustu bæði hér heima og erlendis.

Matthildur nam viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst og fór síðan í mastersnám til Mílanó þar sem hún lauk prófi í rekstri opinberra og alþjóðlegra stofnana.

Hún hefur víðtæka reynslu af störfum í viðburða- og ferðaþjónustu síðustu ár en hún hefur meðal annars stýrt uppsetningu lúxusviðburða Amber Lounge Formula 1 Grand Prix Events um allan heim og var viðskiptastjóri fyrir rekstur lúxussnekkja hjá Camper & Nicholsons í Suður-Frakklandi.

Matthildur hefur frá árinu 2015 starfað sem verkefnastjóri stefnumótandi verkefna hjá Bláa lóninu og stýrt þar verkefnum á borð við innleiðingu aðgangs- og verðstýringarkerfis Bláa lónsins. Hún skipulagði lokun lónsins vegna endurbóta í janúar 2016 ásamt því að koma að vinnu við skipulagningu og þróunar reksturs nýs hótels og heilsulindar Bláa lónsins, The Retreat hotel & spa, sem opnaði í apríl 2018.

Matthildur flytur hingað frá Hafnarfirði ásamt manni sínum, Viktori Magnússyni og ungri dóttur þeirra.

Valaskjálf er fjölnota menningarhús sem á sér sögu í samfélaginu á Héraði. Í dag er þar 39 herbergja hótel, veitingastaður, ráðstefnu- og fundasalir ásamt ölstofu og skemmtistað. Valaskjálf er í eigu 701 Hotels ehf. sem einnig eiga og reka Hótel Hallormstað, Salt Café & Bistro og Skálinn Diner.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar