Megnið af laxinum á breskan markað

Fyrstu löxunum frá eldi Laxa í Reyðarfirði var slátrað á Djúpavogi í lok nóvember. Mikil uppbygging hefur orðið hjá fyrirtækinu á skömmum tíma.

Að því er fram kemur í frétt norska sjávarútvegsvefsins Undercurrent News er áætlað að slátra allt að 1670 tonnum í þessari fyrstu lotu í vetur.

Fyrstu 40 tonnin voru í lok nóvember flutt frá eldisstöðinni að Gripalda með nýjum brunnbát sem hlotið hefur nafnið Lady Ann Marie í endurbætt laxasláturhús Búlandstinds á Djúpavogi. Haft er eftir Gunnari Steini Gunnarssyni, yfirmanni matfiskaeldis, að megnið fari á markað í Bretlandi en norska fyrirtækið Seaborn annast söluna.

Í greininni er fjallað um að skilyrði til laxeldis á Íslandi séu almennt góð, þótt eldisfólk treysti alltaf á ákveðna lukku til að forðast pestir. Laxalús hefur ekki sést á Reyðarfirði og er það sagt tengjast náttúrulegum skilyrðum sem séu að mörgu leyti hagstæðari hérlendis en í Noregi eða Skotlandi. Gallinn sé hins vegar að í kaldari sjó vaxi fiskurinn hægar.

Þá er sagt frá því að Laxar stefni á að ráða nýjan framkvæmdastjóra í byrjun nýs árs. Núverandi framkvæmdastjóri Helgi Sigurðsson fer í aðra stöðu innan fyrirtækisins. Ráðningarstofa hefur séð um ferlið og meðal annars leitað fanga í bæði Noregi og Skotlandi.

Laxar hafa vaxið gríðarlega á stuttum tíma. Árið 2016 voru þar tveir starfsmenn, að því er fram kemur í frétt Undercurrent, en eru nú orðnir 38.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar