Metur hverju sinni hvort staðsetning COVID smita verði gerð opinber

Aðgerðarstjórn almannavarna Austurlands segir að hún muni meta hverju sinni hvort upplýsingar um staðsetningu COVID smita verði gerðar opinberar.

Í tilkynningu aðgerðarstjórnar um málið segir að beiðnir hafa borist aðgerðastjórn gegnum netmiðla um að kynna í hvaða sveitarfélögum smitaðir dvelja. Slíkar upplýsingar um veikindi séu hinsvegar viðkvæmar persónuupplýsingar í eðli sínu og þarf því að stíga varlega til jarðar. Brýnir almannahagsmunir þurfi að vera til staðar svo birting teljist eðlileg og nauðsynleg.

„Aðgerðastjórn mun hinsvegar sem hingað til, meta þetta hverju sinni. Kann því vel að vera að upplýsingar um staðsetningu verði kynntar en þá sem nauðsyn vegna sóttvarna og þar með almannahagsmuna,“ segir í tilkynningunni.

Sjö eru nú smitaðir í fjórðungnum og allir í einangrun. Aðgerðarstjórn segir að ekki sé talið að öðrum sé hætta búin af einstaklingum í einangrun og það að ekki sé þekkt virkt smit í tilteknu sveitarfélagi þýðir ekki að íbúar þar geti talist öruggari en íbúar annarra sveitarfélaga á Austurlandi.  Upplýsingar um staðsetningu virkra smita þykja því hvorki í þágu smitvarna né almannahagsmuna.

„Vel hefur gengið að stöðva útbreiðslu þegar smit hafa komið upp. Smitaðir hafa strax farið í einangrun og smitrakning gengið vel.  Því hefur upplýsingamiðlun um staðsetningu virkra smita ekki verið talin hafa brýnt sóttvarnargildi og slík miðlun jafnvel talin geta skapað falskt öryggi á þeim svæðum sem ekki eru tilgreind og óþarfa óöryggi hinna,“ segir í tilkynningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar