Gistinóttum í júní fækkaði um meira en helming

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júní síðastliðnum dróst saman um 72% samanborið við júní 2019. Samdrátturinn á Austurlandi er 54% samanborið við yfir 90% á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir einnig að enn voru 32 hótel lokuð vegna samdráttarins í júní en mörg hótel lokuðu í mars vegna Covid-veirunnar og hrunsins í ferðamennsku sem fylgdi í kjölfarið.

Samdrátturinn er mestur á höfuðborgarsvæðinu en Suðurnes fylgja fast á eftir með 88% samdrátt og Suðurland með 71%. Samdrátturinn á Austurlandi er 54% sem fyrr segir. Sama hlutfall er á Norðurlandi en minnstur er samdrátturinn á Vesturlandi og Vestfjörðum eða 43%

Herbergjafjöldi á hótelum á Austurlandi minnkaði um 5,4% en um 24% á landsvísu og 40% á höfuðborgarsvæðinu. Nýting þeirra eystra minnkaði um 34,4%, álíka mikið í dreifbýlli landshlutum. Að meðaltali minnkaði hún um 51,4%, mest á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum um 66%.

Gögn Hagstofunnar sýna að gistinætur á hótelum í júní voru 89.900, sem er fækkun um 79% frá sama mánuði árið áður. Á gistiheimilum var fækkunin 75%. Um 16,8% gistinátta á hótelum voru skráð á erlenda ferðamenn, eða 15.100, en gistinætur Íslendinga voru 74.800 eða 83,2%. Athygli vekur að gistinóttum Íslendinga fjölgar um 96% í júlí en fækkunum meðal erlendra gesta er sama tala.

Yfir 12 mánaða tímabil frá júlí til júní er fækkunin á Austurlandi 15%, samanborið við 22% á landsvísu. Fækkunin er yfir 20% á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og Suðurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar