Möðrudalsöræfum lokað í kvöld

Vegagerðin hefur ákveðið að loka leiðinni milli Norður- og Austurlands um Möðrudalsöræfi frá klukkan 20:00 í kvöld. Varað er við miklu norðvestanhvassviðri á Austfjörðum og líkur eru á að fleiri vegir lokist.

Veðurstofa Íslands gaf í gær út appelsínu gula viðvörun vegna norðvestan storms og hríðar. Á Austurland og Austfjörðum tekur viðvörunin gildi klukkan fimm í dag. Hún gildir til miðnættis á morgun.

Á Austfjörðum er búist við norðvestan 15-25 m/s þar sem hvassast verður syðst. Í tilkynningu Vegagerðarinnar er varað við að foráttuhvasst verði milli Hafnar og Djúpavogs en hviður upp á 30 m/s allt frá Reyðarfirði vestur undir Eyjafjöll. Líklegt er að lokað verði milli Skaftafells og Djúpavogs.

Á Austurlandi að Glettingi er spáð ögn minni vindi en á móti úrkomu, einkum nyrst á svæðinu. Hún fellur sem rigning eða slydda á láglendi en snjókoma til fjalla. Vegna þessa hefur verið ákveðið að loka Möðrudalsöræfum frá klukkan 20:00 í kvöld. Nýjar upplýsingar verða gefnar út klukkan níu í fyrramálið.

Hálkublettir eru skráðar á Fjarðarheiði, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Landsnet hefur sent frá sér aðvörun vegna hættu á rafmagnstruflunum. Áraun verður á kerfið vegna slydduísingar, einkum á Norðurlandi, en á morgun verður hvasst á Suðausturlandi, sérstaklega milli Prestsbakka á Síðu og Teigarhorns í Berufirði. Á þeim slóðum verða bæði sviptivindar og almennt vindálag.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar