Mögulega stærsta kolmunnalöndun sögunnar

Færeyska uppsjávarveiðiskipið Christian í Grótinum kom í gær með 3.653 tonn af kolmunna til Eskifjarðar. Þetta er mesti uppsjávarveiðiafli sem landaði hefur verið hérlendis og mögulega stærsti kolmunnaafli sem landað hefur verið í sögunni.

Það var Eskja á Eskifirði sem keypti aflann. Þar á bæ eru upplýsingar um tvær uppsjávarveiðiaflanir í Danmörku á síðustu árum sem fóru yfir 3.500 tonn. Færeyska skipið er töluvert yfir þeim.

Það kom inn til Eskifjarðar fyrir hádegi í gær og löndum lauk á sjöunda tímanum á morgun. Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, segir löndun sjaldan ef nokkurn tíma hafa gengið jafn vel þar.

Eskja hefur tekið á móti 28.000 tonnum af kolmunna á þessari vertíð. Sá afli skiptist nokkuð jafnt milli skipa félagsins annars vegar og norskra skipa og þessa færeyska hins vegar.

„Vertíðin hefur gegnið ágætlega. Það var tíu daga bræla á miðunum í lok janúar. Núna hefur verið að fjara undan veiðinni í færeysku lögsögunni. Það er orðið dæmt þar. Við ætlum að sjá hvað setur þótt við verðum ekki marga daga þar ef svona lítið veiðist.“

Dugir í bræðslu fram á föstudag


Aflinn úr Christian í Grótinum fer allur í bræðslu. Fiskimjölsverksmiðja afkastar um 900 tonnum á dag þannig reikna má með að vinna við aflann klárist ekki fyrr en á föstudag. Þá er spurning hvort einhver skipa Eskju verði tilbúið með næsta farm. „Það er gott að fá svona stóra farma þegar annað er að tæmast,“ segir Baldur.

Hann segir Eskjuskipin vera orðin nær ein eftir íslenskra skipa innan færeysku lögsögunnar. Önnur, til að mynda Hoffellið, séu að færa sig sunnar.

Veiðiheimildir í kolmunna voru auknar milli ára þannig að kvótinn er óvenju ríflegur. Baldur segir afurðaverð hafa verið hátt þótt einhverjar vísbendingar séu um að það fari lækkandi.

Eins og önnur uppsjávarveiðifyrirtæki hefur fólk hjá Eskju fylgst náið með gangi loðnuleitar, en í venjulegu ári væri loðnuveiðar og vinnsla í fullum gangi núna. Kolmunnaveiðiskipin hafa haft augun hjá sér á ferðum til og frá miðunum en lítið hefur sést síðustu daga. Beðið er skipulags frekari leitar. Baldur segir Eskjufólk halda í vonina og þar sé allt tilbúið í snögg umskipti ef það mikið finnst af loðnu að gefinn verði út kvóti.

Mynd: Eskja/Gungör Tamzok

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar