Mótmæla niðurfellingum af vegaskrá
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur á síðustu fundum sínum bókað mótmæli gegn fyrirhuguðum niðurfellingum heimreiða í dreifbýli sveitarfélagsins af vegaskrá.Heimreiðirnar eru annars vegar við Unaós í Hjaltastaðaþinghá og hins vegar við Mýrar í Skriðdal.
Bæjarstjórn gerir athugasemdir við að þótt enginn sé skráður með lögheimili í húsunum sem heimreiðarnar liggja að sé annars vegar að ræða um bújörð tilbúin til rekstrar og hins vegar bújörð í rekstri þar sem húsakostur sé nýttur.
Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, gagnrýndi verklag Vegagerðarinnar harðlega á fundi í byrjun mánaðarins.
„Vegagerðin hefur gengið mjög hart fram undanfarin ár í að hlaupast undan ábyrgð við að halda við vegum með að nýta hvert tækifæri þegar ljós eru slökkt til að taka vegi af vegaskrá.“
Hann ræddi að í tilfellu Unaóss væri bæði ríki og sveitarstjórn sammála um að jörðin færi aftur í rekstur þótt ágreiningur hefði verið um leiðirnar til þess en landið er í eigu ríkisins.
„Það hefur þó enginn haft aðrar hugmyndir en að fólk fari aftur í þetta hús. Þess vegna er það dálítið þreytandi að ríkisstofnunin Vegagerðin gefi nánast ekkert svigrúm til með að fara út í kerfisbreytingar sem kostar vesen að breyta til baka.“