Munar 20 milljónum í álagningu á ári

Yfirfasteignamatsnefnd telur að Fljótsdalshérað skuli leggja á 0,5% fasteignaskatt af vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar en ekki 1,65%. Munurinn eru 20 milljónir króna í skatttekjur fyrir sveitarfélagið Fljótsdalshérað á ári.


„Þetta þýða 8 milljónir á ári í staðinn fyrir 28. Við höfum alltaf miðað við lægri upphæðina í okkar áætlunum en hefðum ekki verið ósátt við að fá annan úrskurð,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Málaferli út af vatnsréttindum við árnar sem virkjaðar voru fyrir Kárahnjúkavirkjun hafa staðið í rúman áratug. Við framkvæmdirnar voru vatnsréttindi af jörðum við þær framseld til Landsvirkjunar.

Í fyrra komst Þjóðskrá Íslands, í kjölfar dóms Hæstaréttar, að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagið Fljótsdalshérað mætti innheimta fasteignaskatt af stíflumannvirkjum og vatnsréttindum.

Í kæru Landsvirkjunar til nefndarinnar er því annars vegar mótmælt að sveitarfélagið leggi á 1,65% skatt, hins vegar er farið fram á að ekki sé reiknaður skattur af vatnsréttindum þjóðlendna þar sem þær tilheyri ríkinu.

Þeim hluta málsins vísaði yfirfasteignamatsnefnd frá með að minna á að vatnsréttindin hefðu verið framseld til Landsvirkjunar. Nefndin taldi hins vegar skattprósentuna eiga að vera 0,5% en ekki 1,65%. Munurinn er sem fyrr segir um 20 milljónir á ári.

Björn segir að lagt verið á samkvæmt úrskurði nefndarinnar. Það þýðir þó ekki endilega að málarekstri sé lokið. „Við hlítum þessum úrskurði en við útilokum ekki að skoða málið frekar og fara með það fyrir dómstóla. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það á þessari stundu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.