Myndun meirihluta í Fjarðabyggð á lokametrunum
Línur eru orðnar nokkur skýrar í viðræðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Ekki er þó enn komið að undirskriftinni.„Það er búið að skipuleggja stíf fundahöld um helgina þannig að línur ættu að skýrast í byrjun næstu viku,“ segir Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks.
„Við erum enn að vinna í málefnum. Þau hafa unnist vel og við erum að útkljá síðustu atriðin. Við höfum farið yfir öll atriði og þau liggja fyrir að flestu leyti. Það er enginn ágreiningur en í þessu er ekkert endanlega búið fyrr en skrifað er undir,“ bætir hann við.
Tvær vikur eru síðan Framsóknarflokkur sleit meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalista á grundvelli trúnaðarbrests eftir að meirihlutinn klofnaði í atkvæðagreiðslur um breytingar á fræðslumálum. Vika er liðin síðan formlegar viðræður um nýjan meirihluta hófust.
Þegar málefnasamningurinn liggur nokkuð ljós fyrir funda flokksfélögin til að staðfesta hann. Ragnar segir að félagsfundirnir hafi ekki verið boðaðir enn en það verði fljótlega ef allt gengur eftir um helgina.