Nær engar líkur að sveitarfélagið kaupi Eiða
Hugsanleg kaup Fljótsdalshéraðs á Eiðum verða rædd á bæjarstjórnarfundi á morgun. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst eru litlar líkur á að sveitarfélagið kaupi svæðið.Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs í gærdag var tekið fyrir erindi um nýtingu Eiða. Bæjarráð fól bæjarstjóra að svara því við umræður á fundinum en sú afgreiðsla bíður þó endanlegrar staðfestingar bæjarstjórnar á morgun.
Landsbankinn eignaðist Eiða í lok síðasta árs eftir uppgjör við fyrrum eiganda, Sigurjón Sighvatsson. Fyrr á árinu fór bankinn fram á nauðungaruppboð á jörðinni þar sem kröfur sem bankinn átti í veð á landinu voru komin í vanskil.
Í kjölfarið auglýsti bankinn Eiða til sölu í gegnum fasteignasölur. Sigurður Magnússon fasteignasali hjá INNI fasteignasölu segir í samtali við Austurfrétt að Eiðum hafi verið sýndur nokkur áhugi þó það hafi enn sem komið er ekki leitt til formlegra samningaviðræðna við Landsbankann. INNI fasteignasala er önnur af tveimur fasteignasölum sem hafa Eiða á söluskrá fyrir hönd Landsbankans.
Ekki liggur fyrir hvaða verð Landsbankinn telur ásættanlegt fyrir Eiða. Sem stendur er fasteignamatið á eigninni upp á tæpar 290 milljónir króna en brunabótamatið hljóðar upp á tæpa 2 milljarða króna.
Eiðar eru fornt höfuðból á Fljótsdalshéraði en staðurinn er hvað þekktastur fyrir að hafa hýst Alþýðuskólann sem starfaði fram á miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Það land og mannvirki sem tilheyrðu Alþýðuskólanum runnu þá til sveitarfélagsins. Ýmsar hugmyndir voru uppi um starfsemi en niðurstaðan var sú að svæðið var selt fjárfestum, sem Sigurjón leiddi. Áform um uppbyggingu á þeirra vegum gengu ekki eftir.