Neitaði að gefa blóðsýni því hann var hræddur við sprautur

Héraðsdómur Austurlands hefur svipt karlmann ökuréttindum fyrir ölvunarakstur. Maðurinn neitaði að gefa blóðsýni eftir að hann var færður á lögreglustöð en krafðist þess að móðir hans yrði fengin til verksins.

Það var um klukkan hálf þrjú aðfaranótt aðfangadags sem lögreglumenn veittu ferðum bíls athygli og töldu rétt að kanna ástand ökumannsins. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum heldur jók hraðann.

Lögreglan fylgdi bílnum eftir þar til honum var lagt framan við hús í bænum. Ákærði sást stíga út úr ökumannssæti og hlaupa inn um aðaldyr hússins ásamt farþega.

Lögregla fór á eftir mönnunum inn í húsið. Í dóminum segir að leita hafi þurft að ákærða inni í húsinu og hann fundist í felum á efri hæð, sýnilega ölvaður.

Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð til að gefa blóðsýni en þegar til átti að taka neitaði hann að gefa sýnið. Þess í stað krafðist hann þess að móðir hans yrði kölluð út til að taka sýnið, en hún er hjúkrunarfræðingur.

Útskýrt var fyrir manninum að nákomnir fjölskyldumeðlimir yrðu ekki fengnir til að annast sýnatöku í þágu sakamálarannsóknar. Honum var kynnt að það að neita kröfu um blóðsýni gæti varðað sekt og sviptingu ökuleyfis. Læknirinn sem fenginn var til að draga úr manninum blóð neitaði að taka sýni ef ákærða yrði haldið með valdi.

Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að hafa keyrt bílinn og drukkið áfengi nokkrum tímum fyrr. Hann sagðist aldrei hafa neitað blóðsýnatöku en spurt hvort einhver annar en læknirinn mætti gera það. Hann hefði rökrætt málin við lögreglumann sem hefði reiðst og sett hann í fangaklefa.

Maðurinn hélt því fram að nokkrum mínútum síðar hefði hann boðist til að gefa blóð og lögregluþjónninn lofast til að ná í lækninn en sá ekki komið. Þá hélt maðurinn því fram að honum hefðu ekki verið kynnt réttindi hans.

Hann skýrði háttalag sitt aðspurður af verjandi sínum á þann hátt að honum væri illa við sprautur og að láta stinga sig.

Framburður lögregluþjóna og lækna var á annan hátt, meðal annars að ákærði hefði aldrei gefið til kynna að hann heimilaði blóðsýnatökuna þótt hann vildi ræða við lækninn. Sú ósk kom um það leyti sem læknirinn var að yfirgefa lögreglustöðina og neitaði hann að ræða við sakborninginn í klefa sínum, enda taldi hann neitunina áður skýra.

Maðurinn var því dæmdur til að greiða 100 þúsund króna sekt og undirgangast sjö mánaða sviptingu ökuleyfis. Þá þarf hann að greiða sakarkostnað upp á rúm 620 þúsund, þar af 527 þúsund króna þóknun skipaðs verjanda. Þar er tekið tillit til ferðatíma verjandans milli Egilsstaða og Reykjavíkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.