Nemendur og foreldrar úr öðrum bekk gróðursettu berjarunna í Tjarnargarðinum

Nemendur og foreldrar úr öðrum bekk Egilsstaðaskóla hittust í gær til að gróðursetja runna í Tjarnargarðinum. Markmiðið var að skapa stund þar sem börn og fullorðnir nytu náttúrunnar saman.

„Stund eins og þessi kennir börnunum að vernda náttúruna, að gefa sér tíma til að sinna henni með foreldrum sínum og huga að umhverfinu við leiksvæðin,“ segir Daria Magurean, sem leiddi vorstundina í gær.

Hún segir hefð fyrir því að foreldrar og börn úr bekknum hittist saman utan skólatíma nokkrum sinnum yfir skólaárið, meðal annars á vorin.

Daria útskýrir að upphaflega hafi hugmyndin verið að planta trjám en sveitarfélagið Múlaþing bent á að takmarkað rými væri orðiðið fyrir þau innan bæjarmarkanna. Þess vegna færi betur á lágvaxnari plöntum.

Þess vegna voru gróðursettir rifsberja- og sólberjarunnar, sýrenur og blóm. Jón Kristófer Arnarson, garðyrkjustjóri Múlaþings, leiðbeindi um staðarval og aðstoðaði við gróðursetninguna.

„Við fengum mjög góðan stað milli garðsins og leikskólans. Börnin geta farið þangað og náð sér í ber þegar þau fara að spretta. Okkur langar líka að koma upp skilti við sýrenuna þar sem fram kemur að bekkurinn hafi plantað því þannig þau geti komið þangað og fylgst með henni vaxa.“

Að gróðursetningu lokinni nutu öll veðurblíðunnar saman með veitingum og leikjum.

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar