Norðfjarðarflugvöllur skiptir heilbrigðisþjónustuna máli
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands segir endurbætur á Norðfjarðarflugvelli hafa reynst stofnuninni vel því óheppilegt sé að þurfa að senda sjúklinga langar vegalengdir í sjúkrabílum. Notkun vallarins hefur aukist verulega eftir að flugbrautin var malbikuð sumarið 2017.Austurfrétt greindi nýverið frá því að samkvæmt tölum frá Isavia hefði fjölda sjúkrafluga um Norðfjarðarflugvöll meira en tvöfaldast frá því að flugbrautin var klædd.
Árið 2018 fór 31 sjúkraflug um völlinn. Sú tala var stöðug 2019 og 2020. Um 60 flug voru um völlinn 2021 og 22 en í fyrra urðu þau fleiri en 80.
Almennt hefur þróunin verið sú að sjúkraflugum frá Austurlandi hefur fjölgað. Þau voru 176 árið 2018 frá Egilsstöðum og Norðfirði en rúmlega 200 í fyrra. Flest urðu þau 221 árið 2022.
Mikilvægt að hafa trygga flutningsleið við sjúkrahúsið
Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir fjölgun fluganna skýrast af fjölgun þess fólks sem sé á svæðinu sem og þeirri staðreynd að þjóðin sá að eldast. Þau haldist þannig í hendur við aðra heilbrigðisþjónustu. „Það er almennt aukið álag á heilbrigðisþjónustu vegna þessara atriða og líklegt að sjúkraflugið fylgi því,“ segir hann um tölurnar.
Fjölgun sjúkrafluga frá Austurlandi er að miklu leyti frá Norðfirði. Guðjón segir skipta miklu máli að hafa góðan flugvöll í nágrenni Umdæmissjúkrahússins. „Það er mikilvægt að hafa trygga flutningsleið nálægt sjúkrahúsinu. Fólk kemur þangað til greiningar og þá er vont að þurfa aftur að fara langar leiðir til að komst í flug.
Sjúkraflutningar skipta almennt miklu máli fyrir dreifbýli svæði sem eru langt frá sérgreinasjúkrahúsunum þangað sem við sendum fólk til meðferðar og þaðan sem við tökum við því að henni lokinni. Sjúkraflugið er að mörgu leyti betri kostur en flutningar á landi sem taka langan tíma og eru óþægilegri.“