Ný ferja breytir engu um siglingar Norrænu til Seyðisfjarðar

Framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi segir siglingar nýs skips félagsins milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi verða hreina viðbót við þjónustuna og taki lítið eða ekkert frá siglingum Norrænu til Seyðisfjarðar.


„Norræna er demanturinn í okkar rekstri og við teljum að þetta hafi engin áhrif á hana. Nýja ferjan er bara viðbót við starfsemina og með henni verða einungis fluttar vörur, ekki farþegar,“ segir framkvæmdastjórinn, Linda B. Gunnlaugsdóttir.

Smyril Line, sem einnig rekur Norrænu sem siglir vikulega til Seyðisfjarðar allt árið um kring, tilkynnti í morgun um kaup á nýrri fragtferju sem hefur siglingar milli Íslands í apríl.

Ferjan fer frá Þorlákshöfn á föstudagskvöldum, kemur til Hollands seinni part mánudags og fer þaðan aftur að kvöldi. Hún kemur til Íslands aðfaranótt föstudags eftir viðkomu í Færeyjum. Flutningstíminn verður sá stysti sem boðið verður upp á milli Íslands og Evrópu í sjóflutningum.

Einkum er horft á möguleika til útflutnings á fiski en innflutnings á ýmsum vörum frá meginlandi Evrópu sem síðan sé dreift um landið frá suðvesturhorninu. Norræna hafi áfram sterka stöðu á Skandinavíumarkaði. Þá opnist möguleikar á innflutningi fyrir Færeyinga frá Evrópu.

„Það vantaði tengingu í beinum siglingum og við töldum að þetta væri það sem markaðurinn kallaði eftir. Innflutningur hefur aukist með Norrænu síðustu ár og eigum von á að hann haldi áfram. Hann gæti þó breyst eitthvað, til dæmis innflutningur á rútum sem komið hafa til Seyðisfjarðar og þaðan verið keyrðar suður.“

Smyril Line hefur keypt 19 þúsund tonna ferju sem tekur 90 tengivagna og 500 bíla í hverri ferð í verkið. Á meðan önnur skipafélög sem sigla til Íslands hafa sérhæft sig í gámaflutningum leggur Smyril Line áherslu á flutningavagna. „Við teljum þá henta eyjaskeggjum mjög vel og viðskiptavinir þekkja þjónustuna því við öfum boðið hana hjá Norrænu.“

Fulltrúar Smyril Line skoðuðu hafnaraðstæður á Eskifirði og víðar á Austfjörðum fyrir nokkrum árum fyrir Norrænu. Aðspurð segir Linda að ekki hafi verið skoðaðir neinir kostir eystra fyrir nýju ferjuna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.