Ný könnun: Tveir flokkar með tvo þingmenn

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fá tvo kjördæmakjörna þingmenn í Norðausturkjördæmi samkvæmt nýrri könnun sem birtist í dag.

Það var Maskína sem gerði könnunina dagana 22. – 24. september. Notast var við netkönnun í úrtakshóp hjá fyrirtækinu. Alls bárust 5.836 svör þar sem 95% tóku afstöðu til flokkanna.

Tölur úr Norðausturkjördæmi byggja á samtals 643 svörum.

Samkvæmt þeim fengu Framsóknarflokkurinn 23% en Sjálfstæðisflokkurinn 15,8%. Báðir þessir flokkar fá tvo þingmenn. Samkvæmt útreikningum Austurfréttar á könnuninni munar þó afar litlu að þriðji maður B-lista slái út annan mann D-lista.

Fimm flokkar fá einn þingmann. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mælist með 12,6% fylgi í kjördæminu, Samfylkingin með 10,7%, Miðflokkurinn 8,8% og Píratar og Sósíalistar með 8,2%.

Viðreisn fær 6,8%, Flokkur fólksins 5,3% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn 0,7%. Þessir flokkar fá ekki kjördæmakjörinn þingmann.

Norðausturkjördæmi hefur níu kjördæmakjörna þingmenn og eitt jöfnunarþingsæti. Atkvæði á landsvísu spila inn í hvar það lendir. Í greiningu Maskínu er ekki tekið fram hvaða flokkur fær jöfnunarmann í Norðausturkjördæmi.

Litlar sveiflur breyta miklu

Nokkrar breytingar eru í könnuninni frá könnun Morgunblaðsins og MMR sem Austurfrétt greindi frá í morgun og sýna hversu spennandi, eða taugatrekkjandi, kosninganótt er í vændum auk þess að hvert atkvæði skiptir máli. Hafa ber í huga að reikna má með 1-2% skekkju í flestum könnunum.

Í könnum MMR mældist Framsóknarflokkur með þrjá þingmenn. Flokkur mælist með örlítið minna fylgi hjá Maskínu, sem og Sjálfstæðisflokkurinn en þessi litla breyting gerir það að verkum að flokkarnir bítast allt í einu um síðasta kjördæmamanninn.

VG kemur töluvert betur út hjá Maskínu og er orðinn þriðji stærsti flokkurinn. Töluvert er þó að þeirra annar fulltrúi fái þingsæti. Næstur inn á eftir Framsóknarmanninum er efsti maður Viðreisnar, en nokkur munur er þó þeirra á milli. Hann mældist inni hjá MMR.

Sósíalistaflokkurinn kemur betur út en hjá MMR og mælist með þingmann. Miðflokkurinn stendur líka sterkar og er með kjördæmakjörinn mann en var með jöfnunarsætið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.