Nýr bátur til Loðnuvinnslunnar

Sandfell SU 75 kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Fáskrúðsfirði í gær. Loðnuvinnslan festi kaup á línuveiðibátnum og 1200 tonna bolfiskkvóta fyrir andvirði 3,1 milljarðs króna.


Bæjarbúum var boðið til móttökuathafnar á Franska spítalanum í gær og var báturinn þar til sýnis við bryggjuna.

Hann er keyptur frá Stakkavík í Grindavík og hét áður Óli á Stað. Hann er rúmlega eins árs gamall. Átta manns vinna á bátnum en fjórir eru í áhöfn í senn. Eldri áhafnarmeðlimir fylgja með bátnum.

Reiknað er með því að báturinn geti veitt um 1500 tonn á ári sé hann gerður stíft út. Bátarnir eru gjarnan fjóra mánuði að veiðum við Reykjanes en síðan átta mánuði við Norður- eða Austurlands. Gert er ráð fyrir að velta af honum geti numið um 300 milljónum króna á ári.

Þórunn Beck, gæðastjóri og trúnaðarmaður í frystihúsi Loðnuvinnslunnar sem starfað hefur hjá fyrirtækinu árum saman, gaf bátnum nafn í gær en Sandfellið er eitt af einkennisfjöllum Fáskrúðsfjarðar.

Loðnuvinnslan hefur bætt við sig bolfiskveiðiheimildum síðustu ár til að mæta sveiflum í uppsjávarfiski. Kaupin á bátnum og kvótanum eru liður í því. Í samtali við Austurfrétt í gær sagði Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, að tilkoma Sandfellsins myndi tryggja stöðugri vinnslu á Fáskrúðsfirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar