Óbreytt framboð hótelherbergja en nýtingin verri en annarsstaðar á landsbyggðinni
Austurland er eini landshlutinn þar sem framboð á hótelherbergjum í maímánuði dróst ekki saman milli ára, heldur hélst óbreytt.
Alls voru í boði 7.888 hótelherbergi á landinu öllu, samanborið við 10.738 í sama mánuði í fyrra. Munurinn skýrist af lokun hótela en 47 hótel voru lokuð á landinu í maí. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum um gistinætur sem Hagstofan birti nú á dögunum.
Hótelherbergi á Austurlandi voru 441 talsins í maí, og fjöldi þeirra óbreyttur milli ára líkt og fyrr segir. Gistinóttum á hótelum fækkaði verulega milli ára, líkt og við mátti búast, en samdrátturinn á landinu öllu nam 88%. Á Austurlandi var þessi samdráttur 83%, mestur var hann á höfuðborgarsvæðinu, 95%, og 94% á Suðurnesjum. Vesturland og Vestfirðir koma best út í þeim samanburði en samdráttur þar var 61%.
Svipaða sögu er að segja af nýtingu á hótelum í maí, en hún var rétt rúm 5% á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en 15,6% á Vesturlandi og Vestfjörðum, 14,5% á Norðurlandi og 11,1% á Suðurlandi. Nýting á hótelum á Austurlandi var á sama tíma 7,9%.
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum á landinu, ekki aðeins á hótelum, voru um 76.000 í maí en þær voru um 660.000 í sama mánuði árið áður. Um 87% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 66.000, en um 13% á erlenda gesti eða um 10.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 51.300, þar af 37.100 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 24.000.
Á vef Hagstofunnar kemur þó fram að áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel sé um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir í lok árs. Þá sé ekki hægt að áætla erlendar gistinætur á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður.