Of heitur spennir olli víðtæku rafmagnsleysi
Starfsfólk Landsnets hefur hafið athugun á hvað varð til þess að spennir í tengivirki við Eyvindará á Fljótsdalshéraði ofhitnaði í morgun. Hitabylgjan á svæðinu á þar hlut að máli þótt athyglin beinist á hví viftur, sem eiga kæla spenninn, voru úti þegar að var komið.Rafmagnslaust varð á Vopnafirði, Seyðisfirði, Borgarfirði, Egilsstöðum og nærsveitum um klukkan 11:20 í morgun þegar spennir við Eyvindará sló út. Eftir um tvær klukkustundir var rafmagn komið alls staðar á aftur.
Um 26 stiga hiti mældist á Egilsstöðum um hádegið og eiga hlýindin sinn hlut í því sem gerðist. Stærra vandamál er að viftur, sem kæla eiga spennirinn, virðast ekki hafa farið í gang og boð um það ekki borist stjórnstöð. „Þær voru skoðaðar síðast í nóvember. Við vitum ekki hvað hefur gerst síðan en við förum yfir það,“ segir Jens Gíslason, fyrirliði reksturs tengivirkja hjá Landsneti.
Spennirinn á Eyvindará er sá eini sem þjónar öllu því svæði sem fór út. Þar hefur ekki verið lokið við hringtengingar, ólíkt því sem nýlega hefur verið lokið við á Eskifirði og Norðfirði. „Það er bara einn 66 kV spennir sem fæðir þetta svæði frá landskerfinu,“ segir Jens.
Nokkrar virkjanir eru á svæðinu, við Lagarfoss, við Seyðisfjörð og í Þverá í Vopnafirði. Þær hafa nógu mikið afl til að halda svæðinu uppi en Jens segist ekki þekkja hvaða forsendur þurfi að vera til staðar þannig þær geti hlaupið undir bagga við skyndilegt rof eins og í morgun. Hann segir rýni á atburði morgunsins enn skammt á veg komna.
Vinna stendur yfir í tengivirki við Hryggstekk í Skriðdal þannig tengingar þar eru með öðrum hætti en vanalega. Jens segir það ekki hafa haft áhrif á það sem gerðist í morgun.