Öll jólatré Fjarðabyggðar úr heimabyggð í ár

Öll jólatré sem sett verða upp í Fjarðabyggð í ár koma úr trjálundi sem fella þurfti í Norðfirði vegna byggingu snjóflóðavarnargarða. Jafnframt hefur sveitarfélagið gefið út viljayfirlýsingu þess efnis að sá efniviður sem þar fellur til verði komið í nyt.


Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, felldi á mánudaginn fyrsta jólatréð af þeim sem skreyta munu bæjarkjarna Fjarðabyggðar á aðventunni.

Fulltrúi Skógræktarfélags Neskaupstaðar, Bjarni Aðalsteinsson, aðstoðaði Pál Björgvin við valið og að því loknu var látið til skarar skríða með aðstoð Þjónustu- og framkvæmdamiðstöðvar Fjarðabyggðar.

Trén verða tekin úr lundi sem Skógræktarfélag Neskaupstaðar hefur gróðursett ofan við bæinn en hann er hluti af því skógræktarsvæði sem víkja mun fyrir snjóflóðamannvirkjum á næstu misserum. Þau tré verða þó ekki felld til einskis. Auk jólatrjánna mun sveitarfélagið leitast við að koma þessum hluta skógræktarinnar í nyt og afhenti bæjarstjóri fulltrúa skógræktarfélagsins viljayfirlýsingu þess efnis en á meðal þess sem vinna má úr trjánum er smíðatimbur í útiborð og -stóla. Skógræktarfélagi Neskaupstaðar verður úthlutað nýju skógræktarsvæði. Einnig mun félagið fá þau tré bætt af ofanflóðasjóði sem verða að víkja.


Þótti tilvalið að nýta trén

Að sögn Önnu Berg Samúelsdóttur, umhverfisstjóra Fjarðabyggðar, er alltaf leitt að sjá á eftir fullræktuðum skógarlundum. Sveitarfélagið vilji þess vegna reyna að nýta eins og kostur er þann við sem mun falla til.

„Ljóst er að skógræktarsvæðið ofan við Neskaupstað þarf að hluta til að víkja fyrir síðustu áföngum snjóflóðavarnargarða sem á að reisa í Norðfirði.

Það er skiljanlega heilmikið tilfinningalegt mál fyrir þá sem hafa lagt vinnu sína við þennan hálfrar aldar gamla trjálund á svæðinu fyrir ofan Blómsturvelli, þó svo að skilningurinn varðandi varnargarðinn sé alger. Þegar mér var svo falið að panta jólatré fyrir sveitarfélagið kviknaði á perunni. Þarna væru mörg gerðarleg jólatré sem mætti kannski nýta í bæjarkjörnum sveitarfélagsins,“ segir Anna Berg.

Hugmyndin varð að veruleika og er þetta í fyrsta skipti sem jólatré Fjarðabyggðar koma öll úr heimabyggð. Í framhaldi kviknaði önnur og ekki síður jákvæð hugmynd sem Anna Berg bindur miklar vonir við.

„Það væri virkilega gaman að geta nýtt þann efnivið sem fellur til vegna framkvæmdanna við varnargarðana. Við höfum því lagt til við Skógræktarfélag Neskaupstaðar að leitast verði við að nýta þau tré sem felld verða, s.s. í smíðatimbur fyrir borð og bekki. Með því móti getur myndast skemmtileg tenging á milli skógræktarinnar og hugsanlegra afurða hennar og sú vinna sem lögð hefur verið í ræktun trjánna verður jafnframt virt að verðleikum.“


Eyþór Stefánsson upphafsmaður trjálundarins

Anna segir söguna bak við trjálundinn skemmtilega. „Eyþór Þórðarson hóf að planta trjám ofan við hús dóttur sinnar árið 1963 eftir að þar hafði veturinn áður fallið lítið snjóflóð. Trjálundurinn var því upphaflega hugsaður sem vörn fyrir húsið sem stendur við Blómsturvelli 15. Eftir að dóttir Eyþórs flutti úr húsinu hafa þeir eigendur sem þar hafa búið viðhaldið þessum trjáreit, bætt í hann og grisjað. Um 1970 voru barnabörn Eyþórs að leik með eld í trjálundinum og í óvitaskap kveikja þau í sinu sem logaði það glatt að töluvert af því sem Eyþór hafði þá plantað brann. Börnin voru ósködduð en skelkuð. Margir héldu að Eyþór yrði ósáttur við þessi örlög lundarins en það var hann síður en svo. Hann var garðyrkjumaður af Guðs náð og sá að eftir sinubrunann áttu ungu trjáplönturnar mun betra með að komast upp og eftir þetta fóru þær að vaxa og dafna.“


Umhverfisvænni leið

Vinabær Fjarðabyggðar, Esbjerg í Danmörku, hefur undanfarin ár gefið eitt jólatré sem hefur verið sett upp í Neskaupstað. Önnur tré sveitarfélagsins hafa að mestu verið keypt frá Fljótsdalshéraði.

„Þetta verða fyrstu jólin sem við verðum alveg sjálfbær um tré þar sem allir bæjarkjarnar fá tré af skógræktarsvæðinu í Norðfirði. Við erum afskaplega ánægð með þetta og með þessu móti skiljum við eftir okkur minni kolefnisfótspor, s.s. með minni olíueyðslu í flutningi. Vinir okkar í Esbjerg skilja vel þessa afstöðu enda erum við einungis að feta þarna í fótspor margra annarra sem hafa stöðvað slíkan gjafainnflutning á jólatrjám á milli landa,“ segir Anna Berg að lokum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.