Píratar stofna svæðisfélag á Austurlandi: Vilja færa þankagang hreyfingarinnar heim í hérað

Svæðisfélag Pírata á Austurlandi var stofnað á fundi sem haldinn var á Egilsstöðum í gærkvöldi. Nýkjörinn stjórnarmaður segir mikinn áhuga á hreyfingunni í fjórðungnum.


„Fyrst og fremst er félagið vettvangur fyrir lýðræðisumbætur í nærsamfélaginu. Við viljum vera í góðum tengslum við það sem og Pírata á landsvísu,“ segir Garðar Valur Hallfreðsson, einn þeirra sem haft hafa veg og vanda að stofnun félagsins.

Hann segir áhersluna á næstunni snúast um undirbúning þingkosninga eftir um ár. Svæðisfélagið nær frá Vopnafirði í norðri til Djúpavogs í suðri. Fyrir síðustu þingkosningar var stofnað félag fyrir Norðurland frá Siglufirði af Langanesbyggð sem hafði frumkvæðið að framboði hreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Garðar lýsir Pírötum sem „lýðræðissinnuðum umbótaflokki“ og þann þankagang langi þá fjórtán Austfirðinga sem mættu til fundarins í gærkvöldi að færa heim í Hérað. Þingkosningarnar séu næsta verkefni en þátttöku á sveitastjórnarstiginu „langtímamarkmið.“

Hann kveðst finna „mikinn áhuga“ fyrir stefnu Pírata. Undirbúningur að félaginu hafi í raun farið af stað í kjölfar þess að þingmenn hreyfingarinnar héldu fundi á þremur stöðum eystra síðasta haust. Hópnum hafi síðan verið ráðlagt af Pírötum annars staðar að stofna svæðisfélag. „Við erum að fikra okkur áfram og kanna jarðveginn.“

Fylgi Pírata tók stökk milli febrúar og apríl í fyrra, úr 13% í 33% og hefur haldist þar síðan. Síðustu daga hafa hins vegar deilur innan þingflokksins verið í fjölmiðlum og um það leyti sem stofnfundurinn hófst eystra var tilkynnt að vinnustaðasálfræðingur hefði verið fenginn til að greiða úr málum.

„Nú get ég bara talað fyrir sjálfan mig en Píratar ræða mál sín fyrir opnum tjöldum á meðan sumir flokkar gera það lokað og fjölmiðlar geta gert sér mat úr því. Kannski þykir sumum þetta gallinn við að hafa allt fyrir opnum tjöldum.

Á móti spyrja hvort það sé slæmt að þingflokkur skuli leita sér aðstoðar til að bæta samskipti. Hvað er neikvætt við það? Er það ekki mannlegt?“

Auk Garðars voru kosin í stjórn í gær þau Stefán Víðisson, Kristín Atladóttir, Þórbergur Torfason og Einar Ben. Þorsteinsson. Aðalverkefni stjórnarinnar er að undirbúa aðalfund sem verður í maí.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.