„Prófastdæmið leggur mikla áherslu á æskulýðsstarf“
Landsmótið er stærsti árlegi viðburður kirkjunnar. Í ár voru þátttakendur um 300 talsins en oft hafa um 700 ungmenni tekið þátt,“ segir Sigríður Tryggvadóttir, prestur á Seyðisfirði, sem kom að vel heppnuðu landsmóti Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) fór fram á Egilsstöðum í lok október.
Um 300 ungmennti sóttu mótið sem að þessu sinni var undir yfirskriftinni Leikandi landsmót.
„Landsmót ÆSKÞ er árlegur viðburður þar sem æskulýðsfélög víðsvegar um landið taka þátt. Mótið er til skiptis haldið á suðvesturhorninu og annarsstaðar og var röðin komin að Egilsstöðum í ár. Þemað og fókusinn í ár var á hverskyns leiki; á því að hafa gaman, líta upp úr símunum og vera í samskiptum hvert við annað. Með því vildum við efla virkni og rjúfa félagslega einangrun. Þetta tókst mjög vel og allir tóku þátt.“
„Ég dáist að því hvað þau eru flink í samskiptum“
Sigríður segir ungmennin hafa staðið sig mjög vel alla helgina. „Þau voru ótrúlega virk og dugleg að taka þátt. Sumum þótti það erfitt, það var nýtt fyrir öðrum og hreinlega var það kvíðavaldandi fyrir einhverja. Sjálfri þykir mér ótrúlega gaman og hreint magnað að vinna með ungu fólki, þau eru svo flott og klár. Að sumu leyti finnst mér þau verndaðri og meiri börn en ég var á þeirra aldri, en á hinn bóginn miklu þroskaðri; læsari á tilfinningar sínar, gera betur grein fyrir skoðunum sínum og kunna að setja mörk. Ég dáist að því hvað þau eru flink í samskiptum.“
Auðveldara að halda fámennari mót
Sigríður segir æskulýðsstarfið á Austurlandi í miklum blóma. „Prófastdæmið leggur mikla áherslu á æskulýðsstarf. Yfirleitt hafa verið um 100 ungmenni að austan sem sækja landsmótin og síðast í fyrra fóru þau í tólf tíma rútuferðalag á Selfoss. Þó má segja að það hafi verið blessun í dulargerfi að þetta mót var svo fámennt sem raun bar vitni, en það er mun auðveldara að halda uppi virkni með 300 einstaklingum en 700. Auk þess verður stemmningin miklu notalegri á mótum sem þessu.“
Sjálfboðaliðarnir mikilvægir
Sigríður segir ekki mega gleymast að minnast á mikilvægi sjálfboðaliðanna sem að mótunum koma. „Það er hópur ungmenna sem sjálf hafa verið í æskulýðsstarfinu, sem eru orðin of gömul til þess að vera þátttakendur en vilja samt vera með. Þau geta skráð sig sem sjálfboðaliða og taka þá þátt í undirbúningi mótsins og því sjálfu. Það eru fjölmargir sem sækja í það og það í raun gerir okkur kleift að halda þessi mót. Þeirra aðstoð er alveg ómetanleg, auk þess sem reynslan er þeim mjög dýrmæt.“