„Rafeldsneyti verður trúlega mest notaði endurnýjanlegi orkugjafinn“

Nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun segir mikinn áhuga á vetnisframleiðslu víða um heim. Líklegur séu á að eldsneyti, framleitt með rafmagni, leiki lykilhlutverk í orkuskiptum á næstu árum.

„Það er mikinn áhugi á vetnisframleiðslu, ekki bara hérlendis heldur á hinum Norðurlöndunum og innan Evrópusambandsins,“ sagði Egill Tómasson, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, á íbúafundi á Reyðarfirði í gærkvöldi.

Hann benti á að innan sambandsins væru komið upp styrkjakerfi til að styðja við vetnisvæðingu. Þá vinni íslensk stjórnvöld að vegvísi fyrir vetnis- og rafeldsneyti sem komi fljótlega út.

Vetnishagkerfi

Þar voru kynntar hugmyndir sem Landvirkjun, danski fjárfestingasjóðurinn CIP og Fjarðabyggð vinna að um uppbyggingu orkugarðs í firðinum. Grunnurinn að orkugarðinum er framleiðsla á vetni en við hana fellur til súrefni og varmi sem vonast er að hægt verði að nýta í aðra atvinnustarfsemi og fyrir nærsamfélagið.

Egill sagði að með þessu yrði í raun til „vetnishagkerfi.“ Landsvirkjun hafi verið að leita að hentugum stað til að setja upp slíkt tilrauna- eða kyndilberaverkefni og Reyðarfjörður hafi verið talinn henta vel til þess.

Vetnið mengar ekki

Með rafeldsneyti er átt við eldsneyti sem framleitt er með rafmagni, en vetnið verður til þegar vatn er klofið með rafmagni í frumefni sín: vetni og súrefni.

Egill sagði ýmislegt áhugavert við vetnið. Í sinni hreinustu mynd væri það meinlaust auk þess að vera gagnsætt og lyktarlaust. „Við bruna þess verður til vatn. Það mengar ekki og skilur ekki eftir sig sótspor. Þess vegna er það svona áhugavert í orkuskiptum,“ sagði Egill.

Bundið öðrum efnum til geymslu

Eins næst mikil orka út úr hverri þyngdareiningu vetnis en galli þess að það er rúmfrekt í geymslu. Það er gjarnan geymt í þrýstikútum en einnig er hægt að binda það málum eða öðrum efnum svo sem ammoníaki eða metanóli.

Egill útskýrði að ekki væri beint horft til vetnisins sem orkugjafa, heldur orkumiðils, það er að til að til að binda og geyma efnasambönd fyrir orkunýtingu. Egill kvaðst reikna með því að vetnið yrði mikið notað í framtíðinni. „Rafeldsneyti verður trúlega mest notaði endurnýjanlegi orkugjafinn.“

Stórfyrirtæki byrjuð að skipta

Rafbílar hafa selst vel hérlendis síðustu misseri en rafmagnið hentar verr fyrir stærri tæki. „Rafmagnið hentar síður í þungaflutningum og flugi því batteríin eru þung. Flutningabíll með mörg tonn af rafhlöðum ber ekki mikið meira. Sama gildir í fluginu, vélarnar verða of þungar til að geta farið í langflug.“

Hann sagði nýtingu vetnis enga framtíðaróra heldur þegar komna af stað. Flutningafyrirtækið Maersk sé búið að ákveða að skipta yfir í skip sem ganga á vistvænu eldsneyti. Í ágúst gekk það frá pöntum á átta fragtskipum sem ganga á metanóli og verða kolefnishlutlaus í rekstri. Það sé skiljanlegt því viðbúið er að innan skamms verði siglingar um ákveðna firði í Noregi bannaðar á öðrum skipum en þeim sem ganga fyrir endurnýjanlegu eldsneyti. Þá nefndi Egill fyrirtækið Hyzon sem þegar hefur sérhæft sig í að framleiða flutningabíla sem gangi fyrir vetni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.