Rannsókn flugslyssins í Sauðahlíðum gengur hægt

Opinber rannsókn á tildrögum flugslyssins í Sauðahlíðum síðastliðinn júlí þar sem þrír létu lífið gengur hægt fyrir sig hjá Rannsóknarnefnd flugslysa (RNFS). Ólíklegt er að hugsanleg orsök eða orsakir verði ljósar fyrr en með lokaskýrslu síðla á næsta ári.

Sá tveggja ára tímarammi er nokkuð á pari við það sem gerist og gengur í slíkum rannsóknum hérlendis. Að sögn Ragnars Guðmundssonar, rannsóknaraðila og flugverkfræðings, beinist meginþungi stofnuninnar nú að komast til botns í tildrögum þess að lítil flugvél hrapaði í Þingvallavatn í febrúar 2022 en með henni létust fjórir einstaklingar. Ljúka þurfi þeirri rannsókn að fullu áður en stofnunin getur einbeitt sér að rannsókn slyssins í Sauðahlíðum hátt uppi í Skriðdalnum.

Þar létust, sem flestum er kunnugt, flugmaður og tveir starfsmenn Náttúrustofu Austurlands sem sinntu vöktun og rannsóknum á hreindýrastofninum í fjórðungnum. Tilefni ferðarinnar einmitt hreindýratalning en sökum þess hve hreindýr dreifa sér mikið um Austurland er vonlítið að meta stofnstærð hverju sinni án talninga úr lofti.

Ragnar vill aðspurður ekki tímasetja gróflega hvenær lokaskýrsla RNFS vegna slyssins í Sauðahlíðum gæti verið opinberuð en telur ekki fjarri lagi að rannsókn gæti lokið vor eða sumar 2025.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar