Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Síldarvinnslunni og Samherja sjálfhætt

Samkeppniseftirlitið hefur hætt rannsókn sinni á hvort skilgreina eigi Síldarvinnsluna í Neskaupstað og Samherja sem eitt og sama fyrirtækið eftir að Síldarvinnslan féll frá kaupum á helmingshlut í Ice Fresh Seafood, sölufélagi Samherja. Eftirlitið hafnar ásökunum stjórnar Síldarvinnslunnar um að hafa gengið of langt í málinu.

Síldarvinnslan tilkynnti síðasta haust að hún hefði keypt helmingshlut í Ice Fresh Seafood af Samherja og jafnframt yrðu önnur sölufélög Samherja erlendis tekin inn í þá samsteypu. Í lok febrúar tilkynnti Samkeppniseftirlitið að það hefði í kjölfar kaupanna ákveðið að hefja ítarlegri rannsókn á tengslum félaganna.

Á sunnudagskvöld tilkynnti Síldarvinnslan að fallið hefði verið frá kaupunum. Um leið var Samkeppniseftirlitið gagnrýnt fyrir að hafa gengið lengra en eðlilegt gæti talist með rannsókn sinni og gagnabeiðnum. Fyrirtækin hafa meðal annars sagt að íslenskir aðilar séu smáir á hinum alþjóðlega markaði þar sem bæði sölu- og kaupfyrirtæki séu að stækka. Þeir þurfi því að fara sömu leið.

Þeim ávirðingum er svarað í frétt sem Samkeppniseftirlitið birti á vef sínum seinni partinn í gær. Þar segir í fyrsta lagi að rannsókninni sé sjálfhætt þar sem ekki verði af viðskiptunum.

Fóru fram á upplýsingar um samskipti stjórnenda í aðdraganda viðskipta


Þar kemur meðal annars fram að Samkeppniseftirlitið hafi fundað með fulltrúum félaganna sem standa að viðskiptunum í lok apríl Á fundinum hafi verið óskað frekari upplýsinga um ákveðin atriði, til að gera gagnaöflun markvissari og flýta þannig málsmeðferðinni. Forstjóri Síldarvinnslunnar og lögmenn hafi svarað spurningum og veitt ýmsar upplýsingar. Á móti hafi Samkeppniseftirlitið skýrt stöðu rannsóknarinnar og upplýst um málsmeðferðina.

Í framhaldinu hafi eftirlitið óskað eftir frekari upplýsingum, svo sem gögnum um starfsemi Ice Fresh Seafood, aðstæður á markaði, samstarf samrunaaðila, skjölum um viðskiptin sem vísað hafði verið til en ekki verið afhent, ásamt upplýsingum um sölunet og félög fyrirtækjanna erlendis. Jafnframt hafi verið óskað eftir tilteknum innanhússgögnum er vörðuðu einkum aðdraganda viðskiptanna. Þá var óskað eftir því að Síldarvinnslan léti eftirlitinu í té innanhússgögn um samskipti stjórnenda félaganna sem í hlut eiga, sem varpa myndu nánara ljósi á tengsl þeirra.

Hluti gagnanna hafi borist og frestur til að skila hluta þeirra, svo sem innanhússgögnum um samskipti stjórnenda, verið veittur til 7. júní. Eftirlitið segir að óskað hafi verið eftir að gögnunum verði skilað þar sem rannsókn sé hætt. Því verði svarað á næstunni, í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli.

„Í tilkynningu stjórnar Síldarvinnslunnar til fjölmiðla er því haldið fram að Samkeppniseftirlitið hafi farið offari við skoðun málsins og að gagnabeiðnir hafi ekki verið í samræmi við umgjörð viðskiptanna. Þessi fullyrðing stjórnar Síldarvinnslunnar er röng að mati Samkeppniseftirlitsins þegar horft er til lögbundins hlutverks stofnunarinnar, meðferðar málsins, þeirra leiðbeininga sem samrunaaðilum hafa verið veittar og gagnaöflunar í öðrum samrunamálum,“ segir í tilkynningunni.

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar