RARIK hættir með fjarvarmaveituna á Seyðisfirði í ár
RARIK hefur ákveðið að hætta rekstri fjarvarmaveitu á Seyðisfirði í ár, sjö árum eftir að fyrst var tilkynnt um ákvörðunina. Fyrirtækið telur dreifikerfið innanbæjar vera að eyðileggjast. Við bætist mikið tap vegna orkuskerðingar. Það býðst til að gefa Múlaþingi veituna.RARIK og Seyðisfjarðarkaupstaður stóðu að því að leggja fjarvarmaveituna árin 1980-81. Fyrst átti RARIK kyndistöðina en kaupstaðurinn dreifikerfið. RARIK keypti það líka árið 1992.
Þegar einkaleyfi RARIK fyrir veitunni rann út árið 2017 var tilkynnt um að fyrirtækið ætlaði að hætta rekstrinum á Seyðisfirði árið 2019, bæði vegna þess að kerfið væri að verða úrelt en einnig vegna hækkunar á orkuverði og minna framboðs á raforku. Í staðinn var boðinn styrkur til Seyðfirðinga að koma sér upp varmadælum. Seyðfirðingar mótmæltu þessum áformum og hefur þeim verið frestað.
Nú hefur RARIK tilkynnt að rekstrinum verði hætt í ár. Ekki liggur fyrir nákvæm dagsetning en hjá fyrirtækinu fengust í morgun þær upplýsingar að það yrði um síðasta lagi um áramót.
Kynt með olíu vegna skerðingar á raforku
Í ítarlegri tilkynningu, sem fyrirtækið sendi frá sér í gær, segir að forsendan fyrir rekstri fjarvarmaveitna hafi alltaf verið framboð á ódýrri á ótryggðri, eða skerðanlegri, raforku til að halda niðri rekstrarkostnaði. Upp úr 1980 var verð þessar orku 15% af verði forgangsorku en í fyrra hafi það verið komið upp í 40-50%.
Staðan hefur versnað síðustu ár með skerðingum á ótryggu orkunni. Hún hefur einfaldlega ekki verið í boði. Á þeim tímum hefur verið kynt á Seyðisfirði með olíu. Í febrúar var tilkynnt um skerðingar vegna lágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum Landsvirkjunar og takmarkana í dreifikerfi Landsnets til vors.
RARIK áætlar viðbótarkostnað vegna þessa rúmar 100 milljónir á Seyðisfirði, sem samsvarar tekjum hennar á heilu ári. Reynt hefur verið að bregðast við með hækkun á gjaldskrám en þær bæta hvorki fyrir umhverfisáhrifin né breyta því að líkur eru taldar á sambærilegum skerðingum áfram næstu ár. Vorið 2022 keypti RARIK 4.000 lítra af olíu í fjarvarmaveituna.
Orkutap vegna tæringar í dreifikerfi
Á Seyðisfirði bætast fleiri vandamál við. Mikil tæring er í dreifikerfinu sem veldur talsverðu orkutapi. Í skýrslu sem verkfræðistofan EFLA vann í fyrra er það áætlað 27%. RARIK telur rótina að vandanum ver aða illa hafi gerið gengið frá kápu þannig að vatn komist í einangrun og tæri pípur. Í skýrslunni er endurnýjunarkostnaður talinn um 600 milljónir króna. RARIK segir reksturinn ekki standa undir því. Árlegur viðhaldskostnaður sé þegar hár.
Frá árinu 2017 hefur verið rýnt í hvernig tryggja megi húshitun á Seyðisfirði til frambúðar. Skýrsla EFLU, sem unnin var fyrir Múlaþing og RARIK, er stærsti áfanginn til þessa í því. Þar eru greindir mögulegir kostir og niðurstaðan sú að miðlæg varmadæla, sem nýti varma úr lofti til að hita, vatn sé hagstæðust, bæði hvað varðar kostnað og framkvæmdatíma. Hún myndi nýta dreifikerfið sem yrði endurnýjað og kostnaði dreift á 20-30 ár.
Bjóðast til gefa Múlaþingi fjarvarmaveituna
Viðræður hafa staðið undanfarna mánuði milli HEF Veitna, fyrir hönd Múlaþings og RARIK um yfirtöku á fjarvarmaveitunni. Á fundi stjórnar HEF í lok febrúar var samþykkt að sækja um styrk til orkuskipta í sjóð á vegum Evrópusambandsins. Í bókun segir að enn séu ljón í vegi yfirtöku, til að mynda framboð raforku, afhendingaröryggi og raforkuverð.
Í tilkynningu RARIK segir að fyrirtækið hafi frá 2017 tekið á sig töluvert tap vegna fjarvarmaveitunnar og gefið sveitarfélaginu ríflegan tíma til að ákveða næstu skref. Nú liggi fyrir ákvörðun og sé Múlaþingi boðið að eignast fjarvarmaveituna án greiðslu. RARIK býðst einnig til að styrkja sveitarfélagið um sömu upphæð og það bauð Seyðfirðingum til að breyta um hitun árið 2017. Þá er minnt á styrkmöguleika hjá Orkustofnun.