Rarik tengir saman Austurland og Suðurland í fyrsta sinn

Til stendur að tengja saman dreifikerfi Rarik á Austurland og Suðurlandi með viðamikilli lagningu strengja á árinu sem er nýhafið. Tæpir 50 km af rafstrengjum voru færðir í jörð á þessu ári.

Þetta kemur fram í framkvæmdayfirliti fyrir síðastliðið ár sem birt hefur verið á vef Rarik. Þar segir að á Austurlandi, sem samkvæmt skilgreiningu telur með Hornafjörð en sleppir Vopnafirði, hafi á síðasta ári verið lagðir 48 km af jarðstrengjum.

Þremur slíkum verkefnum er lokið og lagning við Djúpavog og í Hamarsvirði langt komin. Rafstrengir í jörðu bæta töluvert afhendingaröryggi þar en um mánaðamótin september/október var mikið um truflanir á svæðinu eftir að selta settist á línurnar þar í óveðri.

Á Djúpavogi er búið að tengja kassaverksmiðju Bewi. Vegna þess var kerfið frá Teigarhorni út á Djúpavog styrkt. Þá kemur fram að 11 kV rofabúnaður í aðveitustöð á Stuðlum hafi verið endurnýjaður á árinu. Á Vopnafirði er veri að byggja yfir spenna. Þar var í desember lokið uppsetningu 33/11 kV spennis í aðveitustöðinni vegna tengingar við Þverárvirkjun, sem gangsett var í nóvember. 33 kV strengur var lagður vegna hennar.

Rarik hefur unnið að því að setja upp nýtt fjargæslukerfi fyrir rekstur sinn. Á Norðurlandi er því að mestu lokið. Uppsetning er hafin á Austurlandi og lýkur á árinu.

Á Hornafjarðarsvæðinu hefur verið unnið í miklum strenglagningum. Annars vegar frá tengivirki að Hólum að Almannaskarðsgöng, 6 km leið. Á næsta ári verður strengur lagður í gegnum göngin. Að sunnanverðu stendur til að leggja streng 32ja km leið yfir Skeiðarársand. Með því verður sendir Neyðarlínunnar á Skeiðarársandi rafvæddur í fyrsta sinn sem eykur verulega öryggi heimafólks og gesta. Um leið verða Austurland og Suðurland tengd saman í gegnum dreifikerfi Rarik í fyrsta sinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar