Rúllandi snjóbolti og LungA skólinn tilnefnd til Eyrarrósarinnar

LungA skólinn á Seyðisfirði og Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi eru meðal þeirra verkefna sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar, viðurkenningar fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Verðlaunin verða afhent í Neskaupstað eftir tæpan mánuð.

Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár en af þeim eru sex verkefni sem geta unnið verðlaunin. Af Austurlandi eru LungA-skólinn og Rúllandi snjóbolti á listanum.

LungA skólinn er eini lýðháskólinn sem rekinn er á Íslandi. Hann opnaði vorið 2014 og er listaskóli rekinn í samstarfi LungA-listahátíðina, sem áður hefur fengið Eyrarrósina.

Í umsögn um skólann segir að hann sé tilraunakenndur jarðvegur fyrir sköpun, listir og fagurfræði. Hann sé fyrir þá sem hafa opinn huga, fyrir þá ótömdu og fyrir þá sem vilja rannsaka.

Skólinn ýti undir sérstöðu hvers einstaklings og styðji við bakið á nemendum svo þeir finni sér sína leið í átt að sterkari sjálfsmynd, ásamt því að þroskast, skilja betur heiminn og finna sitt hlutverk í honum.

Tvisvar á ári býður skólinn upp á 12 vikna nám þar sem um það bil 20 ungmenni fá tækifæri til að þroska sig sem listamenn undir leiðsögn reynslumikils listafólks víðs vegar að úr heiminum.

Samtímalistsýningin Rúllandi snjóbolti hóf einnig göngu sína 2014 og er haldin í gömlu bræðslunni á Djúpavogi.

Um er að ræða metnaðarfullt samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center). Á sýningunni síðastliðið sumar áttu 31 listamaður verk á sýningunni, íslenskir og erlendir. Aðsókn eykst ár frá ári en síðasta sumar er talið að allt að 10 þúsund manns hafi séð sýninguna á Djúpavogi.

Auk þessara verkefna eru tilnefnd tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður á Ísafirði, Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Norðanáttin eða Northern Wave í Snæfellsbæ, alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar í Garði og heimildamyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði.

Eyrarrósin verður afhent í Neskaupstað þann 1. mars af Elizu Reid, forsetafrú og verndara viðurkenningar. Hefð er fyrir því að afhenda verðlaunin í heimabæ þeirrar hátíðar sem síðast vann verðlaunin sem var þungarokkshátíðin Eistnaflug í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.